Hrútar var í dag tilnefnd til verðlauna á Cannes-kvikmyndahátíðinni. Ragnar Bragason sparar ekki stóru orðin um myndina.
Ragnar Bragason, leikstjóri kvikmyndanna Börn, Bjarnfreðarson og Málmhaus, segir að Hrútar sé ein allra besta íslenska kvikmynd frá upphafi. Hrútar, nýjasta kvikmynd Gríms Hákonarsonar, hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar.
Ragnar sagðist á Facebook í dag vera búinn að spá fyrir um þennan árangur eftir að hafa séð myndian fyrr í vetur.
Frábær mynd […] Til lukku kæru vinir og enn og aftur til lukku íslensk kvikmyndagerð!
Hrútar er fjórða kvikmyndin í fullri lengd eftir íslenskan leikstjóra sem kemst í Official Selection á Cannes.
Árið 1993 var Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson valin, árið 2003 var Stormviðri eftir Sólveigu Anspach valin og árið 2005 var Voksne mennesker eftir Dag Kára valin til þátttöku í Un Certain Regard.
Hrútar verður heimsfrumsýnd á Cannes-hátíðinni sem er ein virtsta kvikmyndahátíð heims. Myndin fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi.
Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi.
Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. og með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson.