„Stundum eru hlutirnir ósanngjarnir og fara ekki eins og lagt var upp með í byrjun,“ skrifar Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir á Instagram-síðu sína en hún þurfti að hætta keppni á heimsleikum CrossFit í gær vegna erfiðra meiðsla sem tóku sig upp aftur síðustu daga. Þetta eru fjórðu heimsleikarnir sem hún tekur þátt í en hún hefur aldrei lent neðar en í fjórða sæti.
Ragnheiður Sara brákaði og marði rifbein vegna álags í byrjun árs og meiðslin gerðu aftur vart við sig snemma í keppninni á heimsleikunum.
„Ég hef aldrei verið jafn vel undirbúin fyrir heimsleika CrossFit og í ár en eitthvað gerðist snemma í keppninni sem varð til þess að rifbeinin mín urðu marin og sár,“ skrifaði Ragnheiður Sara í langri færslu á Instagram.
Hún segist hafa verið í afneitun og ákveðið að harka sársaukan af sér. Eftir 10 kílómetra í maraþonróðrinum svokallaða, þar sem keppendur þurftu að ljúka 42 kílómetrum á róðravél, á fyrsta keppnisdegi hafi sársaukinn farið og hún hélt því að allt væri í lagi. Eftir að hún lauk róðrinum varð sársaukinn hins vegar margfalt verri.
„Ég hóf keppni á föstudag ennþá í afneitun og eftir „Clean and jerk ladder“-greinina urðu verkjatöflur minn besti vinur. Ég ákvað samt að halda áfram og harka af mér þrátt fyrir viðvörunarbjöllurnar.“
Hún segir verkinn hafa verið orðinn svo slæman þegar hún byrjaði undirbúning fyrir níundu og tíundu keppnisgrein að hún hafi ekki getað haldið áfram og varð því að láta staðar numið.
„Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera í lífinu en ég hef ákveðið að draga mig úr keppninni vegna álagsmeiðsla í rifbeinum,“ skrifar Ragnheiður Sara í færslunni og bætir við að hún hafi tekið þessa ákvörðun eftir að ráðfæra sig við þjálfarann sinn og læknateymi.
Hún segist vera miður sín yfir því að geta ekki lokið keppninni en segir eitt vera á hreinu: Hún mun snúa aftur.