Íþróttakonan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem hafnaði í þriðja sæti á Heimsleikunum í Crossfit í sumar, lét nýlega setja á sig tattú sem hún hannaði sjálf.
Íslensku „dæturnar“ hafa vakið mikla athygli, þá sérstaklega í Crossfit-heiminum, fyrir árangur sinn í íþróttum. Ákvað Ragnheiður Sara að vinna út frá föðurnafni sínu við hönnun tattúsins og valdi hún að setja það neðst á rifbeinin hægra megin.
Ragnheiður Sara notaði stjörnumerki fjölskyldunnar í staðinn fyrir punkta og kommur og bætti g-lyklinum, sem notaður er í tónlist við skrif nótna, í fyrsta s-ið. Hún notaði táknið fyrir fiskinn, krabbann, vogina og tvíburann.
Hún segist í samtali við Nútímann hafa valið g-lykilinn af því að tónlist hafi alltaf verið mjög stór partur af lífi hennar. Hún var í tónlistarskóla í mörg ár, frá því að hún var sex ára og þangað til að hún var á sextánda aldursári.
Það var húðflúrarinn Jo Geirdal hjá Bleksmiðjunni sem gerði tattúið. „Afsakaðu tárin,“ skrifaði Ragnheiður Sara með myndum af tattúunum sem hún birti á Instagram og talaði þá til Jo.