Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sigraði kvennaflokkinn á Crossfit-leikunum Dubai Fitness Championship sem lauk í gær.
Hún náði forystu strax á fyrsta degi og hélt 50 stiga forskoti á næsta keppanda, fyrrverandi heimsmeistarann Samönthu Briggs, alla fjóra daga mótsins.
Sjá einnig: Ragnheiður Sara hannaði eigin tattú út frá föðurnafni sínu: „Afsakaðu tárin“
Í viðtali við mbl.is segir Ragnheiður Sara að hún hafi ekki búist við að fara með sigur af hólmi. Hún varð mjög veik vegna matareitrunar og ældi alla nóttina næstsíðasta keppnisdaginn. Hið sama gilti um þrjár aðrar stelpur á mótinu.
„Við vorum ælandi alla nóttina og mættum svo algjörlega orkulausar til keppni í gær. Við náðum svo að ýta hver annarri áfram í dag,“ sagði Ragnheiður Sara í samtali við mbl.is.
Keppendurnir tókust á við ýmsar áskoranir á mótinu og þurfi Ragnheiður Sara meðal annars að hjóla 38 kílómetra. Hafði hún aldrei hjólað svo langt áður.
Annie Mist Þórisdóttir hafnaði í 3. sæti með 1178 stig. Þuríður Erla Helgadóttir lenti í 11. sæti og Eik Gylfadóttir í því tólfta.
Björgvin Karl Guðmundsson endaði í 7. sæti með 939 stig. Árni Björn Kristjánsson endaði í 27. sæti með 539 stig og Þröstur Ólason í 31. sæti með 494 stig.