Auglýsing

Rannsóknarlögreglumaðurinn sem flúði frá Albaníu er horfinn á Íslandi: Börnin í umsjá yfirvalda

Umsækjandi um alþjóðlega vernd hér á landi hefur verið týndur frá því í byrjun árs og er hans nú leitað. Um er að ræða albanskan rannsóknarlögreglumann á sextugsaldri sem flúði hingað ásamt tveimur ólögráða sonum sínum vegna þess að mafían í heimalandi hans hafði ítrekað reynt að ráða hann af dögum.

Hann heitir Andi Begaj en Nútíminn fjallaði um mál hans ítarlega um miðjan desember. Hann fylgdi tveimur sonum sínum í grunnskóla þeirra þann 4. janúar og hefur ekki sést síðan. Tveir drengir hans voru því upp á sig sjálfa komnir í rúma tvo sólarhringa þar til lögfræðingur Andi hér á landi fékk veður af þessu og gerði ráðstafanir í samstarfi við barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Þar eru þeir nú vistaðir á meðan ekki er vitað um afdrif föður þeirra. Hann hefur því verið týndur í rúmar tvær vikur. Þetta hefur lögmaður hans staðfest.

Hér er Andi ásamt kollegum sínum í lögreglunni í Albaníu.

Í umfjöllun Nútímans um Andi kom meðal annars fram að Volkswagen Passat-bifreið hans var sprengd í loft upp í Albaníu. Notast var við fjarstýrðan búnað sem er ekki á færi margra þar í landi en um er að ræða þekkta aðferð mafíunnar til þess að losa sig við þá sem þeir geta ekki mútað. Samstarfsmenn hans sem hafa verið ósamvinnuþýðir gagnvart mafíunni hafa látið lífið við störf sín hægri vinstri – annað hvort skotnir á götum úti eða ráðnir af dögum með aðferðum eins og bílasprengjum. Þá var dómari í borginni sem Andi býr í einnig ráðinn af dögum um svipað leyti.

Starfskraftar hans verða ekki metnir til fjár

Þetta eru engar kjaftasögur. Þetta hefur verið staðfest með gögnum frá albanska dómsmálaráðuneytinu, saksóknara þar í landi auk yfirmanna í lögreglunni. Þessi gögn ásamt fleirum hafa verið send Útlendingastofnun. Nútíminn hefur þessi gögn undir höndum. Þrátt fyrir allt sem ofantalið er að þá var honum neitað um vernd hér á Íslandi. Þeirri ákvörðun var áfrýjað til kærunefndar útlendingamála og er nú beðið eftir þeim úrskurði.

Heimildarmaður Nútímans í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem rætt var við um miðjan desember var á þeirri skoðun að Útlendingastofnun ætti að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast með því að fá Andi til þess að kortleggja albönsku mafíuna á Íslandi. Reynsla hans af þeim störfum er ómetanleg að mati þeirra sem Nútíminn hefur rætt við og starfa við löggæslu hér á landi. Samt sem áður virðist engin átta sig á því hversu mikilvægt sé að fá rannsóknarlögreglumann frá Albaníu til starfa hér á landi – annað hvort það eða þá að þeir sem fari með stjórn löggæslu í landinu vita ekki af máli Andi. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að ítök albanskra glæpahópa hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Þeir hafa stóra markaðshlutdeild í undirheimum Reykjavíkur þegar það kemur að sölu á kannabisefnum og innheimtu skulda eða handrukkun eins og það er kallað.

Íslensk yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum sínum

Til þess að setja þetta í samhengi þá lýsti bæði lögreglan og dómsmálaráðherra því yfir í fjölmiðlum fyrir tæpum þremur árum síðan að þau hefðu áhyggjur af því að labanska mafían „fari að láta til sín taka hér á landi. Það þurfi með öllum mætti að tryggja öryggi borgaranna með því að styrkja lögregluna,“ segir í frétt Vísis af málinu frá 4. maí 2021. Tilefnið var þáttur Kompás sem fjallaði um skipulagða glæpastarfsemi og ógnina af henni. Eftir því sem Nútíminn kemst næst er engin starfsmaður lögreglunnar, hvorki Ríkislögreglustjóra eða annarra lögregluembætta á landinu, með sérþekkingu á albönskum glæpahópum. Þá hefur engin þeirra heldur tök á tungumáli þeirra, albönsku, sem er töluð af næstum því 98% af allri þjóðinni.

Þessi skjöl, ásamt fleirum, frá yfirvöldum í Albaníu staðfesta frásögn Andi.

Nútíminn hafði ráðgert að hitta Andi og taka við hann viðtal en það átti að fara fram í byrjun janúar. Um sama leiti og hann hverfur. Áfram verður fjallað um mál þessa albanska lögreglumanns á Nútímanum á næstunni þar sem meðal annars verður óskað eftir svörum frá Ríkislögreglustjóra – svör við spurningum eins og hvort embættið viti af umsókn hans um alþjóðlega vernd og til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til þess að stemma stigum við uppgangs albanskra glæpahópa hér á landi.

Þeir glæpahópar sem flestir óttast

Svo því sé haldið til haga að þá er talið að albanska mafían og glæpahópar þeirra á vegum hafi á undanförnum árum tekið yfir stærstan hluta af fíkniefnasmygli í Evrópu. Mafían er samansett af fjöldanum öllum af minni glæpahópum og hefur verið líkt við þekkt skipulögð glæpasamtök á borð við japönsku mafíuna Yakuza, hina ítölsku Cosa Nostra, hina mexíkönsku Cali Cartel. Þá raðar hún sér í sæti átta valdamestu mafíum í heimi. Á þeim lista má finna þessi skipulögðu glæpasamtök sem nefnd eru hér að ofan auk rússnesku mafíunnar.

Starfssvæði albönsku mafíunnar nær yfir fjölmörg lönd og hafa ítök þeirra vaxið og stækkað ört á undanförnum árum. Þeir eru meðal annars í Kosovo, Serbíu, Norður-Makedóníu, Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Tékklandi, Slóvakíu, Bretlandi, Þýskalandi, Sviss, Ástralíu, Frakklandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Belgíu, Ísrael, Svíþjóð, Ekvador og Kólumbíu. Helsta tekjulind þeirra kemur frá lánastarfsemi, handrukkunum, mútum, mansali, vændi, fíkniefnasölu, vopnasmygli, bílaþjófnuðum, þjófnaði og ránum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing