Rapparinn Arnar Freyr úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur fékk á dögunum óvænt að tala inn á Angry Birds-myndina, sem er væntanleg í kvikmyndahús. Þetta kemur fram í Fréttatímanum.
Sjá einnig: Níu skemmtilegar tilvísanir í samtímann á nýju plötunni með Úlfi Úlfi
Í samtali við Fréttatímann segir Arnar að hlutverkið sé ekki stórt og að þetta sé í fyrsta skipti sem hann tekur að sér að talsetja. „Ég var bara eitthvað öskrandi þarna,“ segir hann.
Kærastan mín er mikið að talsetja og ég var hálfpartinn bara á staðnum. Það vantaði rödd fyrir lítinn karakter í myndinni og ég fékk að prófa. Ég var bara réttur maður á réttum stað.
Kærasta Arnars er söng- og leikkonan Salka Sól en hún er öllum hnútum kunn í þessum bransa. Aðspurður segist Arnar ekki vita hvort þetta sé upphafið að einhverju nýju og stóru.
„Jú, verð ég ekki að reyna að mjólka þetta eitthvað? Hætta kannski þessari rappvitleysu. En grínlaust þá veit ég bara að þetta er Angry Birds og karakterinn minn er alger auli. Ég hef þó greinilega ekki verið klipptur alveg út fyrst ég er á kreditlistanum,“ segir hann í Fréttatímanum.