Rapparinn og upptökustjórinn Mac Miller er látinn. Hann var aðeins 26 ára gamall. Í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans kemur fram að Miller hafi verið bjart ljós í lífi fjölskyldu hans, vina og aðdáenda.
Lögreglan í Los Angeles var kölluð á heimili rapparans í hádeginu í gær þar sem hann fannst látinn. Mac Miller byrjaði ungur að gera tónlist. Árið 2012 sendi hann frá sér plötuna Blue Slide Park og komst hún á topp bandaríska Billboard-listans. Hann var þá aðeins 19 ára gamall. Hann gaf út fimmtu plötuna sína, Swimming, í ágúst.
Til stóð að hann myndi fylgja plötunni eftir með fjölmörgum tónleikum í vetur.
Mac Miller hafði talað opinberlega um baráttuna við fíkniefnadjöfulinn. Hann sagðist í viðtali við Vogue árið 2016 hafa breytt um lífsstíl. „Þegar maður verður í fyrsta skipti edrú líður manni eins og ofurhetju. Maður finnur fyrir raunverulegum tilfinningum vegna þess að maður hefur bælt þær niður svo lengi. Það verður miklu auðveldara að finna hvað er mikilvægt,“ sagði hann þá.