Í desember birti Kári Stefánsson grein í Fréttablaðinu sem hófst á orðunum: „Það er orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu“.
Í greininni gagnrýndi Kári framlög stjórnvalda til heilbrigðismála og boðaði undirskriftasöfnun sem átti að hvetja landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn „vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi.“
Sigmundur Davíð svaraði Kára í Fréttablaðinu með grein undir yfirskriftinni: Toppari Íslands. Sigmundur nefndi þó Kára aldrei á nafn en var augljóslega að tala um hann.
„En topparar láta staðreyndir eða framtíðina ekki þvælast mikið fyrir sér. Fyrir þá er aðalatriðið að vera maður líðandi stundar, sá sem fangar athyglina og verður vinsæll meðal trúgjarnra um sinn. Aðrir geta séð um að fást við afleiðingarnar,“ skrifaði Sigmundur Davíð.
Nútíminn kannaði þá hvort fólk væri í Team Kári Stefáns eða Team Sigmundur Davíð. Könnunin var í raun aldrei spennandi.
Í kjölfarið sagðist Kári ætla að svara Sigmundi. „Ég er svolítið upp með mér yfir því að hafa fengið skvettu úr koppi forsætisráðherra, en það er alveg ljóst að ég kem til með að þvo þetta af mér og þurrka mér,“ sagði hann á Vísi.
Undirskriftasöfnunin sem Kári hafði boðað hófst 22. janúar inni á vefnum Endurreisn.is. Þau sem skrifa undir krefjast þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins og nú hafa rúmlega 57 þúsund manns skrifað undir.
Í kjölfarið sagðist Sigmundur Davíð sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. „Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið.“
Kári svaraði á Facebook og sagði að Sigmundur væri búinn að vera fýldur út í allt og alla. Hann tiltók að Sigmundur hafi máli sínu til stuðnings nefnt Sierra Leone og önnur fátæk ríki sem leggja stærri hluta af sinni landsframleiðslu til heilbrigðismála en Ísland gerir.
„Og so what? Það sýnir einfaldlega að sú fátæka þjóð sem býr í því stríðshrjáða landi sem við köllum Sierra Leone er reiðubúin til þess að fórna hlutfallslega meiru en við til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín. Sigmundur Davíð, við eigum að taka þetta fólk okkur til fyrirmyndar hvað þetta snertir í stað þess að tala um þau af lítilsvirðingu,“ sagði Kári.
Allt var með kyrrum kjörum þangað til Kári var spurður út í deiluna í viðtali í Reykjavík Grapevine. Þar sagðist hann ekki eiga í neinum deilum við Sigmund Davíð. „Ég á í engum deilum við hann. Hvers vegna ætti ég að eiga í deilum við tveggja ára offitusjúkling?“
Aldrei þessu vant svaraði Sigmundur Davíð ekki Kára, sem baðst svo afsökunar í Vikulokunum á Rás 1.
„Og skulda ég svo sannarlega hæstvirtan forsætisráðherra afsökunar á því hvernig þetta kom út. Sigmundur er að mínu mati skemmtilegur, skýr, dýnamískur og glæsilegur ungur maður og engin ástæða til að tala um hann á þennan hátt þó svo að okkur greini á um forgangsröðun í íslensku heilbrigðiskerfi,“ sagði Kári í Vikulokunum.
„Þessi skítur er á mína ábyrgð, þessa lotu vann forsætisráðherra tíu núll. Þó forgangsröðin sé ekki rétt hjá honum hvað varðar heilbrigðiskerfið. Mér finnst þetta fyrst og fremst leiðinlegt. Það er fyrir fyrir neðan allar hellur að draga það niður á þetta plan að tala um líkamslag.“
https://www.youtube.com/watch?v=EsRXzNGuovQ