Athugið að fréttin hefur verið uppfærð
Þegar almennir borgarar skila gögnum of seint til ríkis eða sveitarfélaga er ekki óalgengt að þeir hljóti sektir eða aðra refsingu fyrir.
En hvernig er staðið að lögbundnum skýrsluskilum hjá opinberum stofnunum?
Samtök Skattgreiðenda bentu nýlega á tvö dæmi sem benda til slæmra vinnubragða í þessum efnum.
Ríkislögmaður brotið reglur um skýrsluskil
Á vef Ríkislögmanns má sjá ársskýrslur stofnunarinnar, en frá árinu 2013 hefur stofnunin aðeins birt ársskýrslur fyrir árin 2017 og 2020, þar sem átta ársskýrslum hafa verið sleppt.
Ársskýrslur Ríkislögmanns eru ekki umfangsmiklar, heldur aðeins örfáar blaðsíður með tölfræði um starfsemi stofnunarinnar.
Ef venjulegt fólk hefði aðgang að þessum gögnum væri ekki tímafrekt að safna upplýsingunum.
Samkvæmt reglugerð um ársskýrslur ríkislögmanns á stofnunin að senda ráðherra ársskýrslu sína og birta hana opinberlega.
Þessi skylda hefur verið brotin í 8 tilfellum af síðustu 10.
Ríkisendurskoðandi birtir loksins skýrslu fyrir 2022
Ríkisendurskoðandi hefur loksins birt ársskýrslu sína fyrir árið 2022 en hún er aðeins 6 blaðsíður að lengd samanborið við um 60 blaðsíður undanfarin ár.
Enn er beðið eftir ársskýrslu ársins 2023, þó að aðfararorð hafi verið birt.
Í svörum við fyrirspurnum frá Samtökum skattgreiðenda lofaði ríkisendurskoðandi að ársskýrslurnar fyrir árin 2022 og 2023 myndu koma út í desember en það hefur ekki staðist.
Flestar fréttir á vef Ríkisendurskoðanda tengjast vanskilum ársreikninga einkaaðila þó Ríkisendurskoðandi sjálfur sé ekki löggildur endurskoðandi heldur stjórnmálafræðingur.
Ólík meðferð einkafyrirtækja og opinberra stofnana
Í samanburði við einkafyrirtæki þar sem vanræksla við skýrsluskil til eigenda og yfirvalda myndi fljótt leiða til refsinga frá hinu opinbera virðast sömu reglu ekki gildar um opinberar stofnanir.
Ríkisstofnanir sem brjóta reglur um skýrsluskil þurfa sjaldan að óttast sömu afleiðingar.
Það má sannarlega segja að ríkisendurskoðandi fari ekki fram með góðu fordæmi.
Athugasemdir frá Ríkisendurskoðanda
Leiðrétta verður að bæði ársskýrsla 2022 og 2023 liggja nú fyrir í heild sinni og eru aðgengilegar á vef embættisins. Það er rangt sem fram kemur í fréttinni að aðeins aðfaraorð 2023 séu birt.
Tekið skal fram að ríkisendurskoðandi hefur á ári hverju gefið Alþingi skýrslu um störf sín í samræmi við lög nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Hefur enginn brestur orðið þar á.
Framvegis verða ársskýrslur embættisins eingöngu birtar á vefsíðu embættisins en ekki í sérstakri pappírsútgáfu. Hluti af efninu eru hlekkir á efni skýrslna sem liggja fyrir og óþarfi er að endurtaka. Því er ómálefnalegt að draga ályktanir af lengd ársskýrslna.
Athugasemd sem birtist í fréttinni um menntun ríkisendurskoðanda er ómálefnaleg og á sér enga stoð í lögum um embættið eða þeim verkefnum sem embættinu er ætlað að sinna að lögum.