Síðast er vitað um ferðir Rimantas Rimkus, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í gærkvöldi, 1. júní síðastliðinn, eða fyrir þremur vikum síðan. Hann hefur ekki notað greiðslukortið sitt í þessum mánuði. Rimantas er heimilislaus og hefur búið í bílnum sínum að undanförnu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta í samtali við Nútímann.
Hvarf Rimantas var tilkynnt til lögreglu síðdegis í gær en ættingjar og vinir hans voru farnir að undrast um hann. Lýst var eftir bíl hans og fannst hann fljótlega í Elliðaárdal. Í kjölfarið var leitað að Rimantas á svæðinu í kring en sú leit bar engan árangur. Ekki er vitað hversu lengi bílinn hefur verið þar sem hann fannst. Lögreglan ræðir nú við vini og ættingja mannsins og vinnur að því að afla símagagna sem gætu veitt upplýsingar um ferðir hans.
Þau sem geta veitt upplýsingar um ferðir Rimantas eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 112, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.