Stjórn Rithöfundasambands Íslands (RSÍ) hefur setið undir mjög alvarlegum ásökunum undanfarna daga frá félögum sínum vegna tillagna um nefndarmenn í úthlutunarnefnd launasjóðs rithöfunda. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Rithöfundasambandsins.
Vísir greindi frá því í vikunni að allir í stjórn RSÍ, að frátöldum varamönnum og framkvæmdastjóra, hafi fengið úthlutuð 12 mánaða listamannalaun á dögunum. Í fréttinni kom einnig fram að ákvörðunin um úthlutunina sé í höndum þriggja manna nefndar sem stjórn Rithöfundarsambandsins velur sjálf.
Í yfirlýsingunni frá stjórn RSÍ kemur fram að félagar sambandsins hafi sakað stjórnina um sjálftökur og óheiðarleg vinnubrögð vegna tillagna um nefndarmenn í úthlutunarnefnd launasjóðs rithöfunda. Bent er á að RSÍ ber lögum samkvæmt að skila árlega til menntamálaráðherra.
Fyrirkomulag þetta er borið undir aðalfund félagsins á hverju ári og hefur enginn séð á því vankanta hingað til. Stjórnin hreyfist hratt og við erfum vinnureglur frá þeim sem fyrir voru.
Umrædd úthlutunarnefnd tekur líka árlega breytingum og endurnýjar sig alfarið á þriggja ára fresti.
„Þannig er gegnsæi mikið í þessu ferli og allir sem að málum hafa komið hafa vandað sig hið ýtrasta, leitað til fræðasamfélagsins og í þekkingarbrunninn á skrifstofu RSÍ,“ segir í yfirlýsingnunni.
„Að auki hefur þess sérstaklega verið gætt að úthlutunarnefnd tengist hvorki útgáfum, einstökum höfundum né stjórn RSÍ á nokkurn hátt. Þetta er vinnutilhögun sem hefur gengið á milli félagsmanna sem koma og fara úr stjórn. Það er einnig mjög alvarlegt að saka fagfólkið, sem tók að sér vanþakkað starf úthlutunarnefndar hjá Stjórn listamannalauna, um að vera á mála hjá stjórn RSÍ.“
RSÍ hefur fengið til liðs við sig Bandalag íslenskra listamanna og stofnað starfshóp sem mun á næstunni móta vinnureglur fyrir þau aðildarfélög BÍL sem eiga að senda ráðuneytinu tillögur að nefndarfólki í úthlutunarnefndir.
„Í starfshópnum eru ekki listamenn sem þiggja listamannalaun, heldur fulltrúar fræðasamfélagsins og fyrrverandi meðlimir stjórnar listamannalauna,“ segir í yfirlýsingunni.
„Við væntum þess að fá frá þessu góða fólki skýrar tillögur að vinnulagi með fjarlægð á stjórnir félaganna og hið pólitíska vald í huga , en með faglega þekkingu og kunnáttu við mat á listgreinum að leiðarljósi, eins og við höfum ætíð haft. Þegar þessar tillögur liggja fyrir höldum við félagsfund og ræðum málin.“