Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri tískutímaritsins Glamour, segir að fullorðið fólk eigi ekki að vera með buff. Hún hvetur forseta Íslands til að fá sér fallega, íslenska prjónahúfu í stað buffsins. Þetta sagði Álfrúnu í þættinum Brennslunni á FM957 í morgun. Hlustaðu á viðtalið hér fyrir neðan.
Buffið sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var með á hausnum við afhjúpun á upplýsingaskilti um gamlar minjar á svonefndum Skansi í landi Bessastaða um helgina hefur vakið gríðarlega athygli.
Sjá einnig: Forseti Íslands rýfur þögnina um buffið: „Það hefur þegar komið í góðar þarfir“
Skiptar skoðanir eru um buffið og fólk hefur skipst í fylkingar á samfélagsmiðlum, með og á móti buffinu. Álfrún sagði í Brennslunni að hún hafi orðið orðlaus þegar hún sá myndina af Guðna með buffið. „[Ég] var pínu að vona að þetta væri grín.
Fullorðið fólk á bara ekki að vera með buff punktur. Það er bara þannig. Ég er mjög mikið á móti buffum og líka á börnunum mínum, þegar maður er maður skólabarn og það er lúsafaraldur grípur maður í þetta eina sem er til.
Álfrún tók þó fram að henni finnist Guðni vera frábær. „Hann hefur staðið sig frábærlega þennan stutta tíma sem hann er búinn að vera forseti og á allt hrós skilið,“ sagði hún.
Hún gagnrýnir að Guðni hafi verið með buffið á hausnum á opinberri athöfn. „Hann er ekki úti að hlaupa, hann er ekki úti að hjóla. Hann er að vígja eitthvað, þetta er opinber athöfn. Og hann er í mjög smart jakka,“ sagði hún.
„Vertu með húfu, vertu með trefil. Það er til fullt af mjög fallegum, íslenskum prjónahúfum […] Buff klæðir engan. Það verða allir ljótir með buff.“
Fyrir þau sem eru áhugasöm þá fæst buffið í netverslun Alzheimer-samtakanna og kostar aðeins 500 krónur.