Reynir Traustason, fjölmiðlamaður og ritstjóri Mannlífs, greinir frá sérkennilegu atviki á Facebook-síðu sinni sem gerðist á miðvikudaginn í síðustu viku í Mosfellsbæ. Hann var þá eltur af lögreglunni sem setti á blá ljós og stöðvaði hann eftir stutta eftirför – Reynir hélt að þeir hlytu að vera að stöðva einhvern annan en svo reyndist ekki vera.
„Í fyrstu hélt ég að hann ætti erindi við annan ökumann en eftirfylgdin beindist gegn mér og löggan var fast á hælum mér“
Reynir var sá sem lögreglan vildi ná. Ritstjórinn, sem hefur marga fjöruna sopið þegar það kemur að samskiptum við lögregluna, en svo virðist sem að þessi ákveðnu samskipti hafi komið honum í opna skjöldu.
Var með vitni á línunni
„Ég lenti í afar undarlegri uppákomu á miðvikudaginn síðastliðinn í Mosfellsbæ. Ég var á keyrslu og taldi mig vera löglegan í hvívetna þegar ég sá mér til undrunar að lögreglubíll ók á eftir mér með bláum ljósum. Í fyrstu hélt ég að hann ætti erindi við annan ökumann en eftirfylgdin beindist gegn mér og löggan var fast á hælum mér. Ég var í símtali þegar atburðarásin hófst. Símtalið var að sjálfsögðu handfrjálst í gegnum útvarpskerfi bifreiðarinnar. Þegar ég áttaði mig á því að ég væri með stöðu grunaðs manns bað ég viðmælandann um að slíta ekki símtalinu og vera til vitnis ef með þyrfti,“ skrifar Reynir sem virðist hafa gert það rétta í stöðunni – halda viðkomandi á línunni ef ske kynni að laganna verðir myndu misnota vald sitt á einhvern hátt.
„Auðvelt hefði verið að ljúka málinu á kurteislegum nótum í stað þess að halda áfram með rakalausan áburðinn.“
„Lögreglumaðurinn var ábúðarfullur og tilkynnti mér að ég væri grunaður um það brot að tala í farsíma í akstri. Ég benti lögreglumanninum á að ég væri í miðju handfrjálsu símtali og bað viðmælandann um að gefa frá sér hljóð til staðfestingar. Lögreglumaðurinn gaf sig samt ekki og sagði að hann og félagi hans hefðu séð mig með halda á farsíma og ákveðið að veita mér eftirför. Ég reiddist áburðinum og ítrekaði sakleysi mitt og sagði honum að hætta ruglinu og láta mig í friði,“ skrifar Reynir og bætir við að í „hefndarskyni“ hafi þessi ákveðni lögreglumaður óskað eftir ökuskírteini ritstjórans – sem hann svo fór með í lögreglubifreiðina og var þar í drykklanga stund.
Óskaði eftir einkennisnúmeri og vildi skýrslu
„Svo kom hann ábúðarfullur aftur og krafðist þess enn að ég játaði á mig brot. Því var hafnað og ég skoraði á hann að taka málið lengra. Allan tímann var viðmælandinn á línunni og fylgdist forviða með umræðunum um sekt eða sakleysi. Lögreglumaðurinn var greinilega kominn í bobba. Hann treysti sér ekki til að handtaka mig.“
Reynir tekur fram að eftir nokkurt þóf sagðist lögreglumaðurinn ætla að sleppa honum með tiltal. Ritstjórinn óskaði þá eftir einkennisnúmeri lögreglumannsins, sagðist ekki sætta sig við tiltal og skoraði á hann að gera skýrslu um „meint athæfi hans.“
„Við gætum gert út um málið á réttum vettvangi. Hann hafnaði því,“ skrifar ritstjórinn sem fékk þá kveðju frá lögreglumanninum sem þessi sjóaði blaðamaður er enn að reyna að skilja.
„Farðu varlega,“ sagði hann að skilnaði og fór. Ég er enn að velta fyrir mér þeim orðum og hvaða skilning eigi að leggja í þau,“ skrifar Reynir sem vill meina að þessi samskipti hafi verið afar undarleg og einkennst af yfirgangi.
„Auðvelt hefði verið að ljúka málinu á kurteislegum nótum í stað þess að halda áfram með rakalausan áburðinn.“