Róbert Þórir Sigurðsson lenti í frekar neyðarlegu tilviki í New York-borg í gær þegar hann gleymdi tjaldinu sínu fyrir utan hótel sem hann dvelur á. Hann fattaði ekki að hann hafði gleymt tjaldinu fyrr en konan í móttöku hótelsins benti honum á að hann mætti alls ekki yfirgefa hótelið vegna þess að talsverðar líkur væru á því að sprengja væri fyrir utan.
Þessi „sprengja“ reyndist vera tjaldið hans Róberts en því var kirfilega pakkað inn í plast enda voru hann og fjölskyldan að ljúka fimm vikna reisu um Bandaríkin. Vísir greinir frá.
Róbert rekur söguna einnig á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir fjölskylduna hafa mætt á hótelið og tæmt allar töskur úr bílaleigubíl sem þau höfðu á leigu og komið þeim inn á herbergi. Eftir að hafa eytt dálitlum tíma í að skoða borgina kom fjölskyldan aftur á hótelið og beið eftir því að fara út að borða.
Þegar Róbert og fjölskylda komu aftur niður í móttökuna til þess að fara út að borða hafi verið mikil læti á hótelinu þegar og voru löggur búnar að loka öllum götum í kringum hótelið og gestum bannað að fara út. Róbert spurði þá konuna í móttökunni hvað væri í gangi og hún svaraði að allt væri lokað í kringum hótelið vegna hugsanlegrar sprengju.
„Þegar ég lít út um gluggan þá sé ég að „sprengjan“ er kassi sem ég gleymdi fyrir utan hótelið við veginn og segi við afgreiðslukonuna „holy shit this is my box“.“
Afgreiðslukonan trúði Róberti ekki fyrst en eftir að hafa sannfært hana um að þetta væri í raun kassinn hans sprakk hún úr hlátri. Róbert segir lögregluþjónanna ekki hafa haft sama húmor fyrir misskilningnum en þegar hann hljóp út að ræða við þá hafi á milli 20 og 30 lögreglubíla verið mættir á staðinn sem og sprengjusveitin.
Allt endaði þó vel eftir að Róbert náði að útskýra fyrir löggunni og sprengjusveitinni hvernig í pottinn væri búið.