Auglýsing

Róbert Marshall byrjaður að hlaupa aftur

„Ég er nýlega farinn að hlaupa aftur og reikna með að mæta í Mjölni aftur í næstu viku. Hef náð aftur fyrri styrk fyrir utan að vinstri höndin er enn aum en hún brotnaði á fimm stöðum. Það á enn eftir að koma í ljós hversu góð hún verður.“

Þetta segir Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, í samtali við Nútímann. Róbert lenti í vélsleðaslysi í mars þegar hann ók sleða sínum fram af snjóhengju við Hlöðufell. Hann tekur sæti á Alþingi á ný á mánudag.

Meiðsli Róberts voru alvarleg og í viðtali við Kastljós í byrjun apríl lýsti hann slysinu og biðinni eftir hjálp. „Ég hef áður brotið rifbein og þekkti þá tilfinningu. Ég vissi að þetta var töluvert meira en það,“ sagði hann. „Það var raunveruleg hugsun hjá mér: Þú gætir dáið hér. Þetta gæti verið stundin. Ég bara bað, ég bað til Guðs: Ekki núna.“

Róbert er mikill útivstarmaður og í góðu líkamlegu formi. Hann segir að endurhæfingin hafi gengið vel og játar að gott form hafi skipt sköpum.

Ég held það hafi dregið úr innvortis tjóni. Svo hjálpar það í batanum en getur líka unnið gegn manni. Maður getur gengið fram af sér. Sjúkraþjálfarinn minn var mikið í því að bremsa mig niður. Líkaminn verður að fá tækifæri til að lækna sig sjálfur.“

Slysið hefur að sögn Róberts einhver áhrif á hvernig hann stundar útivistina hér eftir. „Til dæmis hvað varðar öryggi,“ segir hann. „En það hefur ekki dregið úr þorsta í ævintýri og ferðalög. Ég kleif fjórar klifurleiðir á laugardag og sé að ég klifra skynsamlegar — á minni handstyrk [fyrir klifurnördana: 5,5,5c en kláraði ekki 6a]. Ég nota fætur betur og er minna í að hífa mig upp. Fremstu kvenklifrarar heims hafa þetta fram yfir karlana. Svo að nú má segja að ég klifri eins og kona.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing