Íslendingar virðast ekki þekkja muninn á ummælum Kim Jong- un og fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Nútíminn setti af stað á föstudag þar sem skorað var á lesendur að greina hver sagði hvað: Leiðtogi Norður-Kóreu eða fulltrúar ríkisstjórnarinnar.
Sjá einnig: Hver sagði hvað? Kim Jong-un eða ríkisstjórnin
Rúmlega 5.000 manns tóku þátt í könnuninni sem er langt umfram þann fjölda sem þarf til að framkvæma marktæka skoðanakönnun.
Ummælin sem vöfðust mest fyrir fólki voru þessi hér:
„Iðnbyltingin á þessari öld er í raun vísindaleg og tæknileg bylting. Að ná í gegn og vera í fremstu röð er styttri leið í átt að verða efnahagslegur risi.“
Um helmingur þeirra sem tóku þátt töldu að Gunnar Bragi Sveinsson ætti þessi ummæli en hið rétta er að þetta er tilvitnun í Kim Jong-un.
46% þeirra sem tóku þátt töldu að Kim Jong-un hefði látið þessi orð falla:
„Flestum jarðarbúum þætti þessi lýsing á landi sjálfsagt hljóma eins og fjarlæg „útópía“, óraunverulegt ævintýraland. En fyrir okkur [land] er þetta ekki svo fjarlægt.“
Hið rétta er hins vegar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lét hafa þetta eftir sér í stefnuræðu sinni á Alþingi í október árið 2013.
Þessi setning vafðist einnig fyrir fólki:
„Dagarnir þar sem óvinir okkar geta kúgað okkur með kjarnorkusprengjum eru liðnir“.
Um fjórðungur þeirra sem tóku þátt töldu að Vigdís Hauksdóttir hefði frekar sagt þetta en Kim Jong-un. Hið rétt er þó að leiðtogi Norður-Kóreu á þessi ummæli.
Þá töldu 27% þeirra sem tóku þátt að Kim Jong-un ætti þessi ummæli Sigmundar Davíðs úr fyrrnefndri stefnuræðu:
„En þeir eru til sem hafa ekki trú á [land], þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar“
Annað vafðist ekki fyrir fólki.
Fáir töldu að Kim Jong-un ætti ummæli Vigdísar Hauksdóttur um gömlu tímana þegar starfsfólk þingsins ávarpaði ekki þingmenn. Ennþá færri töldu að Kim Jong-un hefði tjáð sig um heilsuleysi í kjölfar neyslu á innfluttu kjöti en það var að sjálfsögðu Sigrún Magnúsdóttir sem talaði þannig.
Flestir vissu líka að ummælin um litla þýðingu þjóðaratkvæðagreiðslu ætti Bjarni Benediktsson og að Gunnar Bragi ætti ummælin um nýja ríkisstjórn með nýja stefnu.