Áætlaður kostnaður við að færa nýja og gamla hafnargarðinn við Austurbakka í Reykjavík nemur um 500 milljónum króna. Þrjár vikur eru síðan verktakafyrirtækið Landstólpi hóf framkvæmdir við að færa garðana. Þetta kemur fram á Vísi.
Sex hæða íbúða- og verslunarbyggingu auk bílakjallara rís á Austurbakkareitnum. Hafnargarðarnir voru friðaðir af forsætisráðuneytinu fyrr í ár og verða því hluti af byggingunni.
Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa, segir í samtali við Vísi að verkefninu verði lokið innan mánaðar. Gamli garðurinn var reistur árið 1928 og samkvæmt samkomulagi við Minjastofnun þarf að færa hann stein fyrir stein.
Gísli segir á Vísi að fyrirtækið muni gera kröfu á ríkið með bætur fyrir þetta. „Þannig að þetta endar alltaf á skattborgurum,“ segir hann.
Við munum sækja okkar rétt í þessu. Við teljum að hann sé alveg skýr í ljósi þess að þeir friðuðu garðinn sem er ekki 100 ára. Þannig að þetta endar á skattborgurum.
Inn í töluna vantar bætur vegna tafa sem verða á verkefninu vegna vinnu við að varðveita hafnargarðana.