Kraftlyftingamaðurinn Rúnar Geirmundsson bætti nýju húðflúri í safnið í vikunni. Hann fékk sér tígrisdýr á hausinn og segir að það hafi verið svo sársaukafullt að hann ældi þrisvar á meðan vinnan stóð yfir.
Rúnar er einn skreyttasti maður landsins og spurður um söguna á bakvið flúrið segir Rúnar að tígurinn sé tignarlegur og grimmur. „Ekta rándýr,“ segir hann í samtali við Nútímann.
Svo vil ég ekki vera venjulegur. Vil ekki fitta inn í þennan leiðinlega hversdagsleika og þetta var leiðin til þess!
Rúnar undirbýr sig þessa dagana fyrir heimsmeistaramót í kraftlyftingum í Las Vegas eftir fimm vikur. Æfingarnar eru erfiðar en tígurinn var engu að síður mesti sársauki sem hann hefur nokkurn tíma upplifað.
„Ég svitnaði í gegnum fötin. Ældi eftir línurnar. Ældi eftir skyggingar og ældi eftir flúrið. Hausverkur þannig augun verða að vera lokuð. En afraksturinn var þess virði,“ segir hann.
Og þú ert ekki hættur? Þetta var varla síðasta flúrið?
„Alls ekki. Ég þarf að sameina þetta allt í bodysuit. Það er búið að vera markmiðið í sjö ár,“ segir hann.
Fylgstu með Rúnari á Facebook.