Rússneska samfélagsmiðlastjarnan Alexander Tikhomirov, sem staddur er á Norðurlandi þessa dagana ók utanvegar á mikilli ferð yfir viðkvæmt jarðhitasvæði í Mývatnssveit í gær. Atvikið olli miklu tjóni á svæðinu og var af vilja gert samkvæmt aðalvarðstjóra lögreglunnar á Húsavík. Alexander var gert að greiða 450 þúsund króna sekt hjá lögreglunni á Akureyri í dag.
Ökumaðurinn sveigði út af leiðinni sem liggur frá þjóðvegi eitt að Jarðböðunum og kolfesti bílinn í leirkenndum jarðvegi í kjölfarið. Fjöldi fólks var vitni að athæfinu og fólk á vegum samfélagsmiðlastjörnunnar stóð víðsvegar í kring og tók upp myndbönd, sem síðan var dreift á samfélagsmiðla. Myndin sem Alexander deildi af sér á Instagram þar sem hann stendur við jeppann eftir að hafa fest hann í leirnum hefur vakið hörð viðbrögð.
Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðastjóri hjá lögreglunni á Húsavík, segir í samtali við fréttastofu Rúv að fjöldi fólks hafi orðið vitni að athæfinu og að ökumaðurinn vissi vel hvað hann var að gera. „Það var búið senda þarna út fólk greinilega til að ljósmynda hvað síðan yrði. Og það var ljósmyndað og tekið upp á video í framhaldinu, bæði þegar lögregla var komin á vettvang og þegar bíllinn var dreginn í burtu. Þetta var ekkert þannig að þetta væri eitthvað óhappatilvik.“
Í dag deildi Alexander mynd á Instagram þar sem hann virðist ekki hafa þungar áhyggjur af sektinni. Svæðið sem um ræðir er í landi Reykjahlíðar en það er utan verndarsvæði Mývatns og því ekki ljóst hvort landeigendur eða ríkið beri kostnað af framkvæmdum við að lagfæra tjónið. Hann deildi þá mynd á Instagram þar sem hann slær á létta strengi og skrifar m.a. undir myndina: „Til hamingju, í dag fékk ég háa sekt.“
Þá bendir hann á að nánari upplýsingar verði að finna í myndbandinu sem hann ætlar að deila en Alexander er vinsæl youtube-stjarna þar sem hann deilir myndböndum af ferðalögum sínum með 318 þúsund fylgjendum.