Ferðalag Alexander Tikhomirov til Íslands hefur heldur betur vakið athygli en Tikhomirov þurfti að greiða háa sekt fyrir utanvegaakstur við Mývatn. Hann er þekktur á samfélagsmiðlum ytra og sýndi frá akstrinum á Instagram síðu sinni. Íslendingar hafa margir hverjir látið hann heyra það í kjölfarið.
Tikhomirov svaraði fyrir sig á Instagram í dag þar sem hann skrifar að það hafi enginn sagt honum að utanvegaakstur væri ólöglegur og að hann hafi séð dekkjaför þar sem hann var tekinn áður en hann keyrði þangað.
„Afsakið enskuna mína, ég ætla að reyna að útskýra hvað gerðist á Íslandi,“ skrifar Alexander Tikhomirov, sem olli talsverðu tjóni með utanvegaakstrinum.
„Ég beygði af veginum til að komast nær þokunni, til að taka mynd með bílnum. Ég vissi ekki að svæðið nærri þokunni væri mjög mjúkt. Ég festist,“ skrifar Tikhomirov og segist hafa lent í miklum vandræðum við lögreglu, bílaleigu og landeigendur. „Ég er þegar búinn að borga 5.000 dollara (og þeir vilja enn meira).“
„Síðan áttuðu einhverjir heimamenn sig á því hver við værum og hentu plastflöskum í bílinn okkar á meðan við vorum að keyra. Væntanlega telja þeir að plastið sé betra fyrir náttúruna,“ skrifar Tikhomirov og bætir við að fólkið sem hefur óskað honum dauða séu meiri dýr en þau segja hann vera.