RÚV hefur auglýst eftir aðila til að framleiða Áramótaskaupið í ár. Viðkomandi fær 32 milljónir króna til að klára verkið. Þetta er í annað skipti sem RÚV auglýsir eftir framleiðanda með þessum hætti en það var í fyrsta skipti gert í fyrra.
Arnór Pálmi Arnarson leikstýrði Skaupinu í fyrra sem vann til Edduverðlauna sem skemmtiþáttur ársins. Í auglýsingunni kemur fram að krafist sé framúrskarandi gæða og hugmyndaauðgi og að gert sé ráð fyrir því að Skaupið sé 50 til 55 mínútur að lengd.
Sjá einnig: Femínistar fagna berum brjóstum í Áramótaskaupinu: „Grét úr hlátri yfir dickpic og free the nipple“
„Farið verður fram á reglulegt samtal við dagskrárstjóra og aðkomu hans að lykilákvörðunum sem snerta framleiðsluna, þ.m.t. samþykkt handrits, starfsfólks og á endanlegu klippi,“ segir í auglýsingunni.
Þá kemur fram að RÚV greiði framleiðanda 32 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við framleiðsluna.
Í innsendum tillögum þurfa meðal annars að koma fram upplýsingar um leikstjóra, handritshöfunda og leikara ásamt ítarlegri lýsingu á efnistökum og nálgun í handriti.