Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, hefur beðist afsökunar á atriði úr Stundarskaupinu sem var ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem hefur verið fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Þetta kemur fram á Facebook-síðu RÚV.
Elín Hirst, þingkona Sjálfstæðisflokksins, og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndu Ríkisútvarpið í pistli í Fréttablaðinu í dag fyrir að beina pólitískum áróðri að börnum í Stundarskaupinu á gamlársdag.
Elín og Karl sögðu að RÚV hafi rofið friðhelgi um pólitískt afskiptaleysi sitt gagnvart börnum og brugðist lagalegum og siðferðislegum skyldum sínum.
„Við fólum einhverjum færustu stjórnendum og framleiðendum barnaefnis á Íslandi að sjá um Stundina okkar fyrir nærri þremur árum,“ segir Skarphéðinn í yfirlýsingu.
Þeir hafa staðið undir væntingum og trausti, fært barnefni upp á hærra plan á marga vegu og hlotið mikið lof fyrir. Stundin okkar hefur, undir þeirra stjórn, verið vandað og metnaðarfullt barnaefni sem hefur glatt og frætt æsku landsins.
Árið 2014 var boðið upp á nýjung með áramótagríni sem ætlað var fjölskyldunni allri og var það nefnt Stundarskaupið.
„Það sló í gegn og mæltist afar vel fyrir,“ segir Skarphéðinn.
„Í Stundarskaupinu 2015 var atriði sem er ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem við höfum fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því. Ég og umsjónarmenn Stundarinnar okkar erum sammála um að barnaefni er ekki og á ekki að vera vettvangur pólitískrar ádeilu og það hefur ekki breyst.“
Guðjón Davíð Karlsson, einn af umsjónarmönnum Stundarskaupsins, segir í færslu á Facebook að það hafi verið ætlunin að bjóða upp á grín sem átti ekki að særa neinn.
„Mér þykir mjög fyrir því að efnistök í einu atriði skaupsins hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum,“ segir Gói.
„Það ætti að vera öllum ljóst sem fylgst hafa með Stundinni okkar síðan við Bragi tókum við henni, fyrir nálægt þremur árum, að við berum mikla virðingu fyrir börnum og fjölskyldum þeirra. Við stefnum að því að halda því áfram. Fræða og gleðja.“