Ríkisútvarpið leitar að réttu fólkinu til að taka að sér að framleiða næsta áramótaskaups og óskar eftir tillögum á vefnum ruv.is. Meðal annars er gerð krafa um framúrskarandi gæði og hugmyndaauðgi og þá er gert ráð fyrir að að Skaupið verði 45-60 mínútur að lengd.
Eftir því sem Nútíminn kemst næst hefur RÚV ekki leitað til almennings með þessum hætti áður, þ.e. til að framleiða Skaupið.
Innsendar tillögur þurfa að innihalda eftirfarandi:
- Heildræna sýn á verkefnið; á aðferð, innihald og nálgun við framleiðslu.
- Ítarlega lýsingu á efnistökum og nálgun í handriti.
- Útfærsla á umgjörð, heildarsvip, uppbyggingu eða sérstöku þema.
- Meginlínur í mönnun og/eða tillögur að helstu aðstandendum; leikstjóra, handritshöfundi og helstu leikurum.
Helstu forsendur við gerð Skaupsins:
- Gerð er krafa um framúrskarandi gæði og hugmyndaauðgi.
- Gert er ráð fyrir að Skaupið verði 45-60 mínútur að lengd.
- Innihald skal að fullu vera í samræmi við gildandi lög og reglur um efni sem sýnt er á RÚV.
- RÚV gerir kröfu um að framleiðandi fari eftir leikarasamningum RÚV við FÍL við framleiðslu efnisins
- Farið verður fram á reglulegt samtal við dagskrárstjóra og aðkomu hans að lykilákvörðunum sem snerta framleiðsluna, þ.m.t. samþykkt handrits, mönnunar og á endanlegu klippi.
- Meginlínum ber að skila klipptum eigi síðar en 15. desember en Skaupinu skal skila fullkláruðu til útsendingar eigi síðar en 28. desember.
- RÚV greiðir framleiðanda 30 m. kr. til að standa straum af kostnaði við framleiðslu verksins en framleiðslusamningur milli aðila felur í sér nánari útfærslu og önnur atriði er varða framleiðsluna og skyldur framleiðanda og seljanda.
Umsóknarfrestur er til og með 12. júní 2017.