Sæbrautin var lokuð klukkan sjö í morgun vegna kvikmyndatöku. Þetta var á milli Snorrabrautar og Hörpu og var Kalkofnsvegur einnig lokaður að Geirsgötu. Unnið er að gerð njósnamyndarinnar Heart of Stone.
Göturnar verðar lokaðar til klukkan þrjú í dag að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Aðgangur að Hörputorgi verður að auki takmarkaður í dag.
Frekari götulokanir verða á mánudag og þriðjudag, en frekari upplýsingar um þær má nálgast á vef Reykjavíkurborgar. Umferð verður vísað framhjá lokunarsvæðum með hjáleiðamerkingum.
Leifur Dagfinnsson, eigandi og framkvæmdastjóri True North sem vinnur með hópnum sem kom að utan til að mynda Heart of Stone segir mikið annríki hafa verið við kvikmyndagerð síðustu vikur og mánuði. Tom Harper leikstýrir myndinni en ísraelska leikkonan Gal Gadot (Wonder Woman) fer með lykilhlutverkið ásamt Jamie Dornan (Fifty Shades of Grey).
Leifur segir verkefnið mjög viðamikið. „Biðlum við til þolinmæði Reykvíkinga yfir helgina og biðjum um að geta unnið það í mesta bróðerni,“ segir Leifur Dagfinnsson í samtali við RÚV.