Sænski leikarinn Michael Nyqvist er látinn. Hann var 56 ára að gamall. Hann lést umkringdur fjölskyldu sinni eftir langa baráttu við lungnakrabbamein.
Leikarinn er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem blaðamaðurinn Mikael Blomqvist í Millenium-þríleiknum eftir Stieg Larsson, sem naut gríðarlegra vinsælda. Hann lék einnig í Hollywood-myndum á borð við Mission Impossible: Ghost Protocol og John Wick.
„Gleði og ástríða Michaels smitaði okkur sem þekktum hann og elskuðum,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans. „Sjarmi hans og persónutöfrar eru óumdeildir og allir sem nutu þess að vinna með honum skynjuðu ást hans á leiklistinni.“