„Ég fékk þessa hugmynd því björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur unnið dag sem dimma nótt í sjálfboðavinnu við erfiðar aðstæður og þetta fólk stendur vaktina á sama tíma og þau horfa upp á þessar hamfarir ganga yfir heimabæinn þeirra,“ segir Ísak Atli Finnbogason drónaflugmaður sem safnaði yfir 360 þúsund krónum á tveimur sólarhringum í beinni útsendingu á YouTube – allt fyrir björgunarsveitina í Grindavík.
Þegar gosið hófst í Grindavík á sunnudaginn ákvað hann að streyma myndefni í beinni útsendingu úr drónanum á YouTube-síðu sem hann er með og heldur utan um fjölmörg verkefni hans. Inn á hana komu yfir sjö þúsund áhorfendur, hvaðanæva að úr heiminum, og fylgdust með og tóku þátt í söfnunni.
„Fólkið gat styrkt björgunarsveitina inni á YouTube á sama tíma og það fylgdist með eldgosinu. Ég flaug drónanum og eftir stutta stund voru mörg þúsund manns að fylgjast með. Áður en ég vissi af þá var ég búin að safna tæplega þrjú þúsund evrum fyrir sveitina,“ segir Ísak Atli sem segir hjarta sitt slá fyrir Grindvíkinga.
Björgunarsveitin þurfti að aflýsa stærstu fjáröflun sinni
Ein stærsta fjáröflun Þorbjarnar hefur verið hin árlega flugeldasala en vegna mikils álags þá var ákveðið að slaufa henni. Þannig varð sveitin af gríðarlegum fjárhæðum. Uppátæki Ísaks Atla kemur því vel að notum fyrir sveitina – þá sérstaklega þessa dagana þegar mikið mæðir á þeim, bæði í starfi og einkalífi en langflestir þeirra björgunarsveitarmanna sem starfa í Þorbirni búa í Grindavík.
Ísak Atli byrjaði að fljúga drónum árið 2016 en hann varð fljótt háður þessum byltingarkenndu tækjum sem nú eru notuð í allt frá kvikmyndatöku og yfir í björgunarstörf. Fljótt þróaðist áhugamálið í atvinnu og nú starfar Ísak Atli í íslenska kvikmyndabransanum og hefur getið af sér gott orð sem drónaflugmaður.
Byrjaði á auglýsingum og tónlistarmyndböndum
„Já ég byrjaði á þessu að atvinnu fyrir rúmum tveimur árum síðan. Þetta byrjaði með auglýsingum og tónlistarmyndböndum en núna í sumar fór ég að fljúga fyrir íslenska fyrirtækið Dronefly sem starfar við kvikmyndaframleiðslu á Íslandi,“ segir Ísak Atli sem hefur fjárfest fyrir margar milljónir í drónum og aukahlutum af ýmsum stærðum og gerðum.
„Það kostar mikið að koma sér af stað í þessu.“
Ísak Atli sérhæfir sig í svokölluðum FPV-tökum. FPV er stytting á „First Person View“ sem myndi eflaust vera „Fyrstu persónu sjónarhorn“ ef þýða ætti á íslensku. Hann hefur nýtt FPV-flug áður í streymi en var með öðruvísi dróna nú á dögunum þegar söfnunin stóð yfir – söfnun sem áhorfendur fylgdust með og varð til þess að þessi myndarlega upphæð safnaðist fyrir björgunarsveitina.
Þrír drónar hafa bráðnað
En nú hafa verið sögur af því að fólk hafi tapað drónanum sínum við þessi eldgos. Bæði í Grindavík og annars staðar á landinu. Nútíminn vildi vita hvort Ísak Atli hefði einhvern tímann upplifað slíkt.
„Nei ég hef reyndar aldrei tapað dróna. Það hafa samt þrír bráðnað hjá mér en þeir voru nothæfir eftir það. Ég hef samt tapað þremur dýrum GoPro-vélum í flugi. Þá hef ég líka alveg brotlent þessum tækjum í svona streymum eins og ég var með um daginn. Ástæðan fyrir því er sú að maður er að keyra þá upp að ystu mörkum þess sem dróninn ræður við. Ég man að síðast í desember þá þurfti ég í tvígang að leita af drónanum sem hafði þá lent einhvers staðar úti í rassgati í snjókomu og roki vegna rafhlöðuleysis.“
Hvað geta svona drónar eins og þú notar flogið lengi?
„Dróninn sem ég nota mest er af gerðinni Mavic 3 en hann getur flogið í svona þrjátíu mínútur. Svo þarf ég að fljúga tilbaka, skipta um rafhlöður og aftur út. Stóri DJI Inspire 3-dróninn sem ég nota líka nær kannski tuttugu til tuttugu og fimm mínútum í flugi. Þetta fer afskaplega mikið eftir vind og hitastigi.“
Þeir sem vilja fylgjast með drónaflugum Ísaks Atla geta skundað inn á YouTube-síðuna hans með því að smella hér. Fyrir þá sem nota Instagram að þá mælum við eindregið með því að fylgjast með honum þar undir nafninu @iceland.fpv. Þá er hann einnig með vefsíðuna icelandfpv.is.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur myndskeið sem Ísak Atli hefur tekið upp með drónaflugi víðs vegar um landið auk streymisins sem safnaði fyrir björgunarsveitina.