Ný hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar var til umræðu í borgarstjórn í gær.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, sagði í umræðunum að setja verði áætlunina á bið þar sem ekki eru til fjármunir til að sinna lögbundinni grunnþjónustu borgarinnar. Þá segir hún töluverða áhættu fylgja hjólreiðum í borginni vegna mengunar.
Sveinbjörg sagðist mjög hlynnt því að fólk hjóli en ekki væri alltaf hægt að treysta á að rokið feyki menguninni í burtu og því fylgi lífsstílnum töluverð áhætta vegna mengunar.
Guðmundur Kristján Jónsson, ráðgjafi hjá Borgarbrag, segir í pistli á vefsíðu sinni að hér sé um að ræða þekktan hræðsluáróður gegn hjólreiðum sem rannsóknir hafa sýnt að er ekki á rökum reistur.
Borgarfulltrúum og öðrum til málsbóta er rétt að halda til haga að aðgangur að fræðigreinum og rannsóknum er ekki alltaf ódýr eða auðfenginn en þegar það kemur að hjólreiðum er það yfirleitt ekki tilfellið.
„Í þessu tilfelli hefði verið einfalt fyrir Sveinbjörgu að slá inn eftirfarandi leitarorð: Do the health benefits of cycling outweigh the risks? Ef hún hefði gert það þá hefði þessi rannsókn að öllum líkindum komið upp í leitarniðurstöðum en það vill svo heppilega til að hún er opin öllum, höfundar hennar eru virtir fræðimenn og niðurstöðurnar eru mjög afgerandi.
Þegar það kemur að hjólreiðum í borgum þá er heilsufarslegur ávinningur af auknum hjólreiðum mun meiri en hugsanleg heilsufarsleg áhætta sem þeim fylgir.“
Guðmundur bendir á að þeir sem hjóla í stað þess að keyra lengja líftíma sinn um 3-14 mánuði á meðan meint áhætta af völdum mengunar er einungis talin stytta líftíma hjólreiðamannins um 0.8-40 daga og möguleg slysahætta um 5-9 daga.