Tónlistarkonan Salka Valsdóttir úr Reykjavíkurdætrum segir að ef rétt reynist að það sé best að vera kona á Íslandi sé það sorglegt.
„Þegar við gefum út tónlistarmyndbönd, segja Íslendingar: Farið aftur í eldhúsið,“ segir tónlistarkonan Salka Vals í samtali við Ameliu Abraham, blaðamann Noisey, sem sótti landið heim í síðustu viku.
Áður kom fram að um tónlistarkonuna Sölku Sól Eyfeld hefði verið að ræða. Mistökin hafa nú verið leiðrétt.
Abraham segist í greininni hafa heyrt að Ísland væri einhvers konar femínista útópía og að World Economic Forum hefði sagt að það væri best að vera kona á Íslandi. Ákvað hún því að nota tækifærið þegar tónlistarhátíðin Iceland Airwaves stóð yfir og koma í heimsókn.
Hún ræddi meðal annars við Sölku Vals sem sagði að ýmislegt hefði breyst í íslenska tónlistarheiminum frá því að hún var að alast upp.
Salka segir að textar karlkyns íslenskra rappara hafi breyst frá því að hún var yngri, nú séu þeir mun meðvitaðri um jafnréttismál.
„Af því að ef þú spilar strax á eftir fimmtán konum getur þú ekki farið upp á svið og dregið úr okkur. Við erum líka á dagskránni, þeir eru neyddir til að virða okkur,“ segir hún.
„Þegar ég var að alast upp voru allir hip-hop-tónlistarmenn karlkyns,“ rifjar Salka Vals upp.
„Lögin voru alltaf mjög niðurlægjandi gagnvart konum. Frægasta rapplagið þegar ég var í áttunda bekk hét Þröngar píkur og fjallaði um að sofa hjá stelpum undir aldri.“