Verslunarkeðjan H&M fer í samstarf með undirfatamerkinu Love Stories. Þetta er fyrsta undirfatahönnuðarsamstarf verslunarkeðjunnar og línan kemur í búðir um miðjan ágúst um allan heim, þar á meðal í verslunum H&M hér á landi að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá H&M.
H&M x Love Stories línan samanstendur af brjóstahöldurum, þvengum og nærbuxum en einnig náttförum, augnmaska, sokkum og sérstökum geymslupoka úr blúndu. Litapalletta línunnar er rykbleikur, svartur og ólívugrænn og má blanda öllum flíkum línunnar saman til að skapa sinn eigin stíl.
Merkið Love Stories var stofnað árið 2013 af Marloes Hoedeman í Amsterdam og einkennist af litríkum munstrum, blöndu af ólíkum stílum og þægilegri hönnun.
Hoedeman segir samstarfið við verslunarkeðjuna hafa verið eins og ástarsamband og það hafi frá fyrsta degi einkennst af gagnkvæmri virðingu.
„Línan er þróuð út frá hinum klassísku Love Stories-undirfötum, brjóstahaldarar og nærbuxum þar sem mismunandi munstrum og litum er blandað saman svo úr verði skemmtileg blanda af ólíkum stílum,“ segir Hoedeman.
Pernilla Wohlfart, yfirhönnuður H&M, segist lengi hafa dáðst af Marloes fyrir drifkraft sinn og hönnun. Hún segist með þessu samstarfi vilja sýna að þrátt fyrir að undirföt sjáist ekki alla jafna feli þau í sér jafn mikla tjáningu og stíl og þau klæði sem maður ber utan á sér.
Viðskiptavinir H&M mega búast við að línan komi hingað í búðir um miðjan ágúst.