Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík, er nýr borgarfulltrúi í Reykjavík. Sanna er nýorðin 26 ára gömul og er því yngsti fulltrúinn sem kjörinn hefur verið í borgarstjórn. Með því slær hún 44 ára gamalt met Davíðs Oddssonar.
Sveitarstjórnarkosningarnar nú eru fyrstu kosningarnar sem flokkurinn fer í gegnum en hann var stofnaður seint á síðasta ári. Sósíalistaflokkurinn fékk einn fulltrúa kjörinn og 6,4% atkvæða í Reykjavík.
„Mér finnst æðislegt að vera komin í þessa stöðu og sérstaklega að sjá sýnileika kvenna, ungra kvenna, og að vera af blönduðum uppruna. Mér finnst það líka skipta máli af því að maður hefur ekki séð mikið af dökkum konum í stjórn. Þannig að mér finnst mjög gaman að fá að vera í þeirri stöðu,“ sagði Sanna í samtali við fréttastofu Rúv.