Crossfit-stjarnan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir lauk keppnistímabilinu í Crossfit um síðustu helgi þegar heimsleikarnir í Madison kláruðust.
Sjá einnig: Anníe Mist í þriðja sæti á heimsleikunum í Crossfit, Katrín Tanja og Ragnheiður Sara náðu ekki á pall
Sara sem lenti í fjórða sæti á mótinu er nú komin í afslöppun í Karíbahafinu. Hún skrifaði pistil á Instagram-síðu sína í morgun þar sem hún fer yfir leikana, tímabilið og hvað sé framundan.
Sara stefndi á sigur á mótinu en heppnin var ekki með henni að þessu sinni „Tímabilið endaði ekki eins og ég vonaðist eftir,“ segir hún.
Ég stóð mig ekki eins vel og ég ætlaði mér á heimsleikunum. Heppnin var ekki með mér að þessu sinni og ég gerði líka mistök sem reyndust dýrkeypt.
Þó svo að heimsleikarnir hafi ekki endað eins og Sara ætlaði þá endaði hún í fjórða sæti og það er árangur sem hún segist geta verið stolt af.
„Ég get verið stolt af því að enda í fjórða sæti í erfiðustu keppni í heimi. Ég er 24 ára gömul sem þýðir að ég á nóg eftir og get enn bætt mig. Ég ætla að bæta öll metin mín og láta finna fyrir mér í komandi keppnum,“ skrifaði Sara en færsluna má sjá í heild hér að neðan.