Auglýsing

Sársvöng Sunna í darraðardansi á leiðinni í næsta bardaga: Ferðalagið til Kansas tók 39 klukkustundir

Sunna Rannveig Davíðsdóttir er nú á fullu að undirbúa sig fyrir annan bardaga sinn sem atvinnumaður í blönduðum bardagalistum. Sunna mætir Mallory Martin, 23 ára bardagakonu frá Bandaríkjunum, á Invicta 22 bardagakvöldinu í Kansas City næstkomandi laugardagskvöld.

Ferðalagið til Kansas gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig en Sunna og föruneyti hennar úr Mjölni hafa lent í ýmsu. Ferðalagið hófst aðfaranótt sunnudags en lauk ekki fyrr en síðdegis á mánudag og tók samtals 39 klukkustundir. Flugið tafðist og ferðaáætlun riðlaðist sem er ekki gott fyrir bardagafólk sem er í miklum undirbúningi og á sérstöku mataræði eins og Sunna.

„Síðustu vikuna fyrir bardaga þá er ég annars vegar að drekka afar mikið af vatni með tilheyrandi klósettferðum og hins vegar er ég á þaulskipulögðu og kolvetnissnauðu mataræði,“ segir Sunna.

Þetta er allt saman í fínasta lagi ef ég er með matarskammtana mína klára og baðherbergi í seilingarfjarlægð.

Sunna segir að langt ferðalag sé því talsverð áskorun og að riðlunin á ferðaplaninu hafi haft sín áhrif. „Flugið tafðist og í þokkabót var flugvélin stappfull og ég var í miðjusæti á milli tveggja eldri kvenna, sem voru þó reyndar afar indælar,“ segir hún.

„Stuttu eftir að flugið hófst þá sofnaði konan sem var í gangsætinu og þar sem ég þurfti að komast á klósettið á kortersfresti þá var smá bras að klifra yfir hana og passa að hún vaknaði ekki. Þetta slapp nú til án teljandi vandræða en þaðan fór ferðin að súrna.“

Teymið missti síðan af tengifluginu þurfti að fara á annan flugvöll til að ná öðru flugi. Þurftu þau því að finna sér gistingu þar sem ekki yrði flogið fyrr en næsta morgun.

„Á þessum tímapunkti var ég búin að klára alla matarskammtana sem ég hafði útbúið fyrir ferðalagið og var orðin verulega svöng og þónokkuð frústreruð. Það var ekki auðvelt að finna matsölustað sem bauð máltíðir sem samræmdust mínu prógrammi,“ segir Sunna.

„Allt sem í boði var, var meira og minna saltað, sykrað og stappfullt af óhollustu. Okkur tókst þó á endanum að finna salatbar þar sem einnig voru boðnir heitir réttir. Ég gat samið við kokkinn þar um að græja fyrir mig þrjú egg og svo borðaði ég bara vel af káli með því. Við það varð allt betra.“

Sunna og föruneyti eru kominn til Kansas og undirbúningurinn getur því haldið áfram. „Þetta var 39 klukkustunda ferðalag sem núna er komið í baksýnisspegilinn og hinn almenni lokaundirbúningur fyrir bardagann er því loksins hafinn,“ segir hún.

„Það sem drepur mann ekki styrkir mann og ég er er ekki búin að ferðast alla þessa vegalengd með öllum þessum flækjum til neins annars en að klára ætlunarverk mitt.“

Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og er þriðji bardagi kvöldsins. Útsending hefst klukkan 12 á miðnætti og má gera ráð fyrir að Sunna stígi í búrið lauslega fyrir klukkan eitt.

Hér fyrir neðan má sjá þáttinn Leiðin að búrinu sem var birtur á vef MMAFrétta

Ef þú vilt fylgjast betur með undirbúningi Sunnu er hægt að fylgja henni á þessum samfélagsmiðlum.

Facebook
Instagram
Twitter
Snapchat: SunnaTsunami

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing