Einn athyglisverðasti aðdáandi íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er án efa Sayeed Mojumder frá Bangladesh. Sayeed hefur vakið mikla athygli á Twitter þar sem hann birtir reglulega stuðningsyfirlýsingar til íslenska landsliðsins og risa fána sem hann hefur útbúið til heiðurs liðinu.
Á dögunum setti Hilmar Jökull Stefánsson, stjórnarmaður í Tólfunni, af stað söfnun til þess að fá Sayeed til landsins. Í dag tilkynnti Hilmar svo að söfnunin hefði tekist með aðstoð frá Dohop, Kristjáns Zophoníassonar og fjölmargra Íslendinga sem lögðu inn pening til að styrkja Sayeed.
Hilmar hringdi í Sayeed í morgun og færði honum gleðitíðindin. Sayeed var gráti næst þegar hann fékk fréttirnar og sagðist svo vera ánægður með fréttirnar. Sayeed mun mæta til landsins 10. október næstkomandi og sjá Íslendinga keppa við heimseistara Frakka á Laugardalsvelli.