Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur, var gestur í þættinum Bítinu á Bylgjunni í dag og ræddi þar vatnsneyslu íslendinga. Margt áhugavert kom fram í spjallinu við Elísabetu en hún segir meðal annars að mikilvægt sé að vatnið sem við drekkum sé ekki of kalt.
„Best er að fá sér volgt vatn fyrst þegar við vöknum, vera með hálfan lítra við náttborðið, drekka það,“ sagði Elísabet.
Hún talar einnig um mikilvægi þess að drekka nógu mikið vatn, en ráðlagt er að hver og einn drekki um 8 vatnsglös yfir daginn. Elísabet segir þá að þegar sest er við matarborðið eigi að passa að borða ekki of hratt og halda vatnsdrykkju í lágmarki.
„Þá erum við að eyða út ensímunum sem brjóta niður matinn. Þannig að við eigum að drekka vatnið aðeins skynsamlegar, og alls ekki ískalt. […] Þá erum við svolítið að herpa bæði æðarnar og herpa ensímin þannig að þau nýtast ekki vel,“ sagði Elísabet.
„Ef við dreifum magasýrunum, þynnum þær, þá erum við ekki að nýta þær eins vel til að brjóta matinn. Við eigum að kyngja hægt, njóta matarins.“
Hægt er hlusta á spjallið við Elísabetu í Bítinu hér.