Pistlahöfundurinn og kennarinn David Hopkins segir að sjónvarpsþátturinn Friends hafi komið af stað hruni vestrænnar siðmenningar. Þetta segir hann í ansi skemmtilegum pistli á vefnum Medium.
„Ég vil ræða aðeins um vinsælan sjónvarpsþátt sem ég og konan mín höfum verið að horfa á á Netflix. Þetta er saga um fjölskyldumann, vísindamann, snilling sem lendir í slæmum félagsskap. Hann missir hægt og rólega vitið og eftir að eitt óhappið rekur annað verður hann að skrímsli. Ég er að sjalfsögðu að tala um Friends og sorglegu söguhetjuna Ross Geller.“
Svona hefst pistillinn.
Hopkins segir að þrátt fyrir að litið sé á Friends sem gamanþætti þá geti hann ekki hlegið. Hann segir að heimskunni sé beinlínis hampað í þáttunum og bendir á hvernig fyrsti þátturinn af Friends hófst nánast á því að Ross sagði: „hæ“ og Joey svaraði: „Þessi gaur segir hæ og mig langar að drepa mig.“
Þá segir hann Ross stöðugt gagnrýndan fyrir að reyna að koma upplýsingum á framfæri.
Henn bendir á að þemalagið sendi meira að segja þau skilaboð að lífið sé í eðli sínu villandi, leitin að starfsferli hlægileg og fátækt handan við hornið. En alltaf verðurðu umkringdur fíflum sem verða til staðar fyrir þig.
Hopkins rökstyður fullyrðingu sína um að Friends hafi komið hruni vestrænnar siðmenningar af stað þannig að árið sem síðasti þátturinn fór í loftið hafi Facebook verið stofnað. Þá hafi George W. Bush hafi verið endurkjörinn forseti Bandaríkjanna og að raunveruleikasjónvarp orðið gríðarlega vinsælt.
Til að sporna við þessari þróun hvetur Hopkins fólk til að lesa bækur, læra nýja hluti, hætta að kaupa drasl og vernda nördanna.
Pistillinn er stórskemmtilegur. Smelltu hér til að lesa hann.