Auglýsing

Segir ásakanir Sigmundar Davíðs glórulausar og bendir á fimm ósvaraðar spurningar um Wintris

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, biður um afsökunarbeiðni frá RÚV í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni segir hann að hópur starfsmanna og verktaka Ríkisútvarpsins hafi haft eitt og annað við sig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram alla aðra stjórnmálamenn og -flokka.

Sigmundur sakar hóp innan RÚV sem hann kallar SDG-RÚV-hópinn um að hafa sterkar skoðanir á pólitík og samfélagsmálum sem endurspeglist í störfum hans. Hann segir að ýmiskonar þvættingi hafi verið blandað inn þátt Kastljóss um Panama-skjölin og að stuðst hafi verið við falsað viðtal við sig.

Segir hann að viðtalið hafi verið skipulagt, tekið á fölskum forsendum og klippt sundur og úr samhengi auk þess sem svörtum filter og tæknibrellum hafi verið beitt í ofanálag. Það hafi að öllu leyti verið byggt á hreinni lygi af hálfu starfsmanna og samstarfsmanna RÚV.

Í lok greinarinnar spyr Sigmundur útvarpsstjóra hvort hann sé til í að biðja sig eða eiginkonu sína afsökunar.

Aðalsteinn Kjartansson, fjölmiðlamaður á RÚV, segir í færslu á Facebook að ásakanir Sigmundar séu glórulausar. „Má ég ekki bara endurbirta sömu svör og síðast og þar áður við þessum glórulausu ásökunum frá Sigmundi Davíð? Þetta breytist alla vega ekki neitt hjá honum, sama hvaða staðreyndum er haldið á lofti,“ segir hann.

Það virðist ekki henta honum að fara með málið fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins (eða RÚV) heldur hentar betur að skrifa greinar á bloggið og í Morgunblaðið þar sem hann getur leikið hlutverk fórnarlambsins án truflunar.

Aðalsteinn segir að enn sé mörgu spurningum ósvarað um Wintris og tekur nokkur dæmi:

  1. Hvaða eignir voru eða eru inn í Wintris Inc.?
  2. Hvernig var gert grein fyrir félaginu á skattframtölum Sigmundar, eins og hann sagði sjálfur að hefði verið gert, og eiginkonu hans?
  3. Hvernig var tilkynnt um sölu Sigmundar á helmingshlut í félaginu til eiginkonu sinnar fyrir 1 dollar?
  4. Er til einhver staðfesting á fullyrðingu Sigmundar að skráning helmingshlutar á hann hafi verið mistök Landsbankans?
  5. Hverjum var greint frá tilvist Wintris Inc. og hvenær?
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing