Ef kona birtir mynd af berum brjóstum sínum á Instagram eru allar líkur á því að myndin verði fjarlægð. Ef karlmaður gerir slíkt hið sama gerist lítið annað en að myndin safnar lækum um ókomna tíð. Og þetta er Apple að kenna, samkvæmt Kevin Systrom, framkvæmdastjóra Instagram.
Sjá einnig: Instagram fjarlægði brjóstamynd af Chrissy Teigen en hún birti myndina aftur og aftur
Systrom var spurður út í málið í Lundúnum á dögunum. Hann sagði að strangar reglur App Store Apple krefjist þess að geirvörtur kvenna sjáist ekki í öppum sem eru í boði vefversluninni. Til þess að mega birta slíkar myndir þarf appið að vera bannað fólki undir 17 ára aldri.
Þá sagði hann að ef reglurnar yrðu brotnar gæti Instagram verið hent útaf App Store.
Góð útskýring, Systrom, en af hverju má þá birta ber brjóst á Twitter, sem á einnig app í App Store? Twitter er ekki bannað börnum í versluninni og er meira að segja merkt 4+, sem þýðir að verslunin líti svo á að ekkert efni sem getur farið fyrir brjóstið á fólki sé birt í appinu.