Bára Halldórsdóttir, manneskjan sem tók upp samræður sex þingmanna á Klaustur bar í miðborg Reykjavíkur þann 20. nóvember síðastliðinn, segir að umtalað hljóð sem heyrðist á Klaustri þegar þingmenn ræddu Freyju Haraldsdóttur hafi komið úr átt þingmannanna.
Klausturmálið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum undanfarnar vikur en Bára stígur fram í viðtali við Stundina í dag. Áður hafði hún haft samskipti við fjölmiðla undir dulnefninu Marvin.
Sjá einnig: Freyja Haralds segir upptökurnar dæmi um kerfisbundið hatur valdhafa
Ein upptakan sem hefur vakið hvað mesta athygli var þegar þingmenn ræddu Freyju Haraldsdóttur og gerðu grín að henni. Í upptökunni heyrist hljóð sem virðist vera einhver að leika sel þegar Freyja er rædd.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagt að um umhverfishljóð hafi verið að ræða og hefur getið sér til um að hljóðið komi frá stól eða reiðhjóli. Anna Kolbrún Árnadóttir reyndi að koma ábyrgðinni yfir á fjölmiðla og spurði hvaða fréttamaður hefði tengt hljóðið við sel og hvaða fordómum sá fréttamaður byggi yfir.
Bára segir í viðtalinu við Stundina að umtalað hljóð hafi verið framkvæmt inni á staðnum og að það hafi komið úr átt þingmannanna.
„Ef þetta var reiðhjól eða bíll að bremsa, þá hlýtur reiðhjólið eða bíllinn að hafa verið inni í herberginu, inni á Klaustri bar. En ég sá engan bíl og ekkert hjól,“ segir Bára.