Eva Björk Pétursdóttir segir að íbúð sem auglýst er til sölu á Akranesi hafi verið metin óíbúðarhæf vegna þess að hún var morandi í myglusveppi. Eva keypti íbúðina og átti hana þangað til hún gafst upp á framkvæmdum þegar ástandið kom betur í ljós.
Í auglýsingunni er tekið fram að rakaskemmdir séu á nokkrum stöðum í íbúðinni. Þá er kemur fram að skemmdir séu á gólfefnum og veggjum vegna raka, að harðparket sé að hluta ónýtt og að það vanti að klára frágang vegna endurbóta innanhúss. Loks er tekið fram að ryð sé í utanhússklæðningu og að endurnýja þurfi múr og glugga.
Í færslu á Facebook, sem hefur vakið talsverða athygli, segir Eva að það hefði mátt taka fram að íbúðin hafi verið metin óíbúðarhæf af bæði fulltrúa heilbrigðiseftirlits og þar til gerðum skoðunarmanni. „Ekki vegna „smá rakaskemmda“ heldur vegna þess að íbúðin er morandi í myglusvepp,“ segir hún.
Myndirnar þarna segja ekki mikið. Ég borgaði mörg hundruð þúsund fyrir einhver blöð og matsgerðir. Blöð sem ég á enn þá og sanna að þarna er ekki hægt að búa.
Eva segist hafa öll gögn í höndunum sem sanna skrif sín. „Ég vona samt svo heitt og innilega að engin lendi í því sama og ég lenti í með þessa íbúð. Ég trúði því og treysti að bæði fyrrum eigendur og fasteignasali kæmu heiðarlega fram og að það væri hægt að taka mark á orðum þeirra — en svo var svo sannarlega ekki,“ segir hún.
Sárast finnst Evu að hafa farið út með ekkert. „Allt sem ég átti varð þarna eftir ónýtt vegna myglu! Ástandið er það slæmt þarna. Allt fjármagn sem fór í bæði uppgerðina á íbúðinni, skoðanir, mælingar og mat er tapað. Fjárhæðir sem nema hundruðum þúsunda. Ég vona að enginn gangi í sömu gildru og ég með þetta. Þetta hvílir enn þungt á mér þar sem ég er í raun enn að vinna upp allt sem tapað er.“
Eva segist hafa vonað að þarna gætu hún og dóttir hennar komið sér vel fyrir fyrir. „Því lögðum við pabbi minn allt okkar í að gera þetta að huggulegu heimili. Þær vonir urðu að engu vegna ófyrirséðs ástands eignarinnar sem öll grasserar í raka og myglu.“
Íbúðin er nú í eigu Íbúðalánasjóðs. Eva fór á sínum tíma fram á riftun á kaupsamningi en samkvæmt lögfræðingi stóðust þau sem seldu henni eignina ekki greiðslumat og gátu því ekki tekið við henni á ný. Þurftu þau að eiga aðra eign eða einhverjar eigur svo hægt væri að rifta samningi eða sækja bætur, samkvæmt upplýsingum sem Eva fékk.
Eina leiðin fyrir Evu var að hætta að greiða af húsnæðinu sem endaði með því að Íbúðalánasjóður eignaðist íbúðina. Ég fór eftir því sem mér var ráðlagt í þessu; hætti bara að borga lánið en greiddi samt öll önnur gjöld svo ég yrði ekki gerð gjaldþrota,“ segir hún í samtali við Nútímann.
Þá segir Eva að fasteignasalinn hafi fullyrt að engin bleyta væri í íbúðinni og að sjáanlegar skemmdir hafi verið faldar. „Stórar bókahillur voru meðal annars settar fyrir það sem sjáanlegt var,“ segir hún.
„Ég líka sótti lyklana við afhendingu og fór inn í íbúðina tóma. Ég vissi ekki hvað var að gerast þegar ég sá þetta tómt. Hringdi í pabba minn sem var á sjó og sagði honum að þetta væri ógeð og að ég væri hrædd um að geta ekki búið þarna. Hann skoðar þetta þegar hann kemur í land og hefst handa við lagfæringar. Hann fer samt og ræðir við fasteignasalann sem segir að ekkert þurfi að hafa áhyggjur af þessu því þarna sé allt þurrt. Hann kom ekki einu sinni til að skoða þetta.“
Eva segir að einn maður hafi komið vel fram í þessu mál og að það hafi verið starfsmaður Íbúðalánasjóðs.