Hjalti Már Björnsson, kennslustjóri og sérfræðingur í bráðalækningum á Landspítalanum, segir að hjálmleysi hjólreiðamanna á Íslandi sé ekki vandamál og ef að vilji sér fyrir því að draga úr tíðni alvarlegra höfuðáverka á Íslandi væri skynsamlegra að setja hjálmaskyldu á þá sem keyra bíla. Þetta kemur fram á Vísi en Hjalti var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í gær.
Hjalti segir þar að áhrif hjálma við að koma í veg fyrir höfuðáverka séu minniháttar, mun minni en fólk heldur. Þó svo að hjálmar virðist draga örlítið úr tíðni höfuðáverka ef fólk dettur á hjólum þá séu þessi áhrif minniháttar og vísindarannsóknir hafa bent til þess.
Í frumvarpi til nýrra umferðarlaga er lagt til að notkun hjálma verði gerð að skyldu hjá hjólandi einstaklingum yngri en átján ára. Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af hjólreiðafólki og Landsamtökum hjólreiðamanna. Hjalti segir að það sé mikilvægara fyrir börn yngri en fimmtán ára að nota hjálma en fullorðna.
„Ég held að þau mörk sem hafa verið við fimmtán ára aldur hafi verið skynsamleg. Eftir það er þetta orðið sjálfráða fólk að miklu leyti, praktískt séð, þó það sé ekki lögfræðilega. Mér finnst alltof langt gengið að gera það að skyldu að setja hjálma á alla sem eru eldri en fimmtán ára,“ sagði Hjalti í Reykjavík síðdegis.
Hjalti bendir einnig á að bílaumferð sé mun stærra vandamál heldur en hjólafólk án hjálma. Mannfólkið sé að eyðileggja lífríki manna með því að ferðast á bílum. Samtök bílaeigenda og olíuframleiðanda vilja mála hjólreiðar upp sem hættulegan ferðamáta til að viðhalda því ástandi.
„Ef að við viljum draga úr tíðni alvarlegra höfuðáverka á Íslandi væri mun skynsamlegra að mínu mati að setja hjálmaskyldu á þá sem keyra bíla,“ segir Hjalti en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum.