Stofnendur Crowbar Protein, sem framleiðir orkustangirnar Jungle Bar, saka starfsmann Matvælastofnunar um að segja ósatt um neyslu skordýra í Evrópu. Þeim hefur verið gert að farga vöru sinni eða senda hana úr landi. Þetta kemur fram á mbl.is.
Byrjað var að selja Jungle Bar í Hagkaup 10. janúar. Jungle Bar inniheldur fræ, trönuber, súkkulaði og krybbuhveiti. Aðeins viku eftir að sala hófst á Íslandi var Jungle Bar kippt úr hillunum vegna innleiðingar á reglugerð Evrópusambandsins hér á landi.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar hefur tilkynnt eigendunum að annað hvort þurfi þeir að láta farga Jungle Bar á eigin kostnað eða koma vörunni úr landi.
Sjá einnig: Hvar er pödduprótínið? Fá ekki að selja orkustangir úr krybbuhveiti á Íslandi
Helga Margrét Pálsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir á Vísi að skordýr séu ekki leyfð á neytendamarkaði í Evrópu. Í samtali við mbl.is segja Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Stefán Atli Thoroddsen og Frosti Gnarr, eigendur Crowbar Protein, þessa staðhæfingu ekki vera sanna.
Þeir segja að mjög nýlega hafi hún sent tölvupóst til Crowbar Protein þar sem hún tilkynnti að þrjú Evrópuríki hafi sérstaklega leyft skordýr til manneldis; Belgía, Holland og Bretland.
Á rúmri viku hafði hún sem sagt gleymt því að þessi ríki leyfðu sölu á skordýrum til manneldis og tilkynnir í fjölmiðlum að skordýr séu ekki leyfð á evrópskum neytendamarkaði.
Þá segja þeir á mbl.is að Helga haf sent afrit af lista yfir leyfileg skordýr í Belgíu.
„Jungle Bar inniheldur krybbur af tegundinni Banded cricket, en sú tegund er einmitt inni á listanum. Því er meira að segja fordæmi fyrir því að skordýrið sem við notum sé leyft til sölu í Evrópu.
Loks segjast þeir á mbl.is geta bent á fjölmörg dæmi þess að matvæli sem innihalda skordýr séu seld víðar í Evrópu.