Hagsmunasamtök heimilanna segja að vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær, þar sem ákveðið var að breyta ekki stýrivöxtum, ekkert annað en stríðsyfirlýsingu gegn heimilum landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér í morgun.
Þar segir að „hvert mannsbarn með vott af skynsemi ætti að sjá að vaxtahækkanir Seðlabankans hafa fyrir löngu síðan snúist upp í andhverfu sína og auka beinlínis vandann sem þær eiga að glíma við.“
Þá krefjast samtökin þess að Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Íslands grípi strax í taumanna áður en „staðan verður verri en hún er þegar orðin.“
Fréttatilkynning Hagsmunasamtaka heimilanna í heild sinni:
Í stríði gegn heimilunum
Vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær er ekkert annað en stríðsyfirlýsing gegn heimilum landsins.
Hvergi á byggðu bóli voga seðlabankar sér að fara gegn heimilum landsins með viðlíka hætti og hér og hvergi á byggðu bóli hefur verðbólgan haldist jafn há og hér.
Hvert mannsbarn með vott af skynsemi ætti að sjá að vaxtahækkanir Seðlabankans hafa fyrir löngu síðan snúist upp í andhverfu sína og auka beinlínis vandann sem þær eiga að glíma við.
Fyrir hverja er verið að berjast við verðbólguna ef ekki fyrir fólkið í landinu?
Fólkið í landinu er ekki til fyrir fjármálafyrirtækin og líf þess á ekki að snúast um að fóðra þau.
Aðgerðaleysi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og þar áður þessarar sömu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, gagnvart þessu áhlaupi á heimilin er óverjandi, en því miður ekki fordæmalaust.
Vegna þjónkunar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar við fjármálakerfið, misstu a.m.k. 15.000 fjölskyldur heimili sín, fyrir utan allar þær sem lentu í skuldaklafa og ánauð bankanna vegna þeirra „reddinga“ sem þeim var boðið upp á.
Fyrir skynsamt fólk eru vítin til að varast þau en ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar virðist loka augunum fyrir hrikalegum afleiðingum aðgerða Seðlabankans.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa varað við afleiðingum þess að verið sé að ýta fólki yfir í verðtryggð lán frá því þetta brjálæði hófst fyrir rúmum tveimur árum, en talað fyrir daufum eyrum, sem aðeins eru þó að sperrast núna, allt of allt of seint.
Ríkisstjórnin er ekki valdalaus gagnvart Seðlabankanum. Henni ber að grípa til aðgerða til að verja og bjarga heimilum landsins því hagur þeirra skiptir mun meira máli en manngerð lög um sjálfstæði Seðlabankans, sem engir varnaglar voru settir á. Því er hægt að breyta og því þarf að breyta.
ENGINN hefur leyfi til að fórna heimilum landsins með markvissum hætti fyrir fjármálakerfið, alveg sama hver það er og alls ekki fólk sem engin hafa kosið og sækir umboð sitt til Ríkisstjórnar Íslands.
Hingað og ekki lengra, Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Íslands grípi strax í taumanna áður en staðan verður verri en hún er þegar orðin.