Auglýsing

Selma segir Nóa Sírus nota nafn sitt til að selja Nóa kropp

Selma Björnsdóttir, leik- og söngkona og fyrrverandi þátttakandi í Eurovision fyrir Íslands hönd, velti fyrir sér hvort sælgætisframleiðandinn Nói Síríus hefði ekki átt að bjóða henni nokkra poka af Nóa kroppi þar sem ákveðið var að nota nafn hennar til að selja súkkulaðið.

Auglýsingin hefur hljómað ítrekað í sjónvarpi síðustu daga og vakti Selma athygli á málinu á Facebook í gær.

„Nú er ég búin að sjá og hlusta á Nóa kropps auglýsingu í sjónvarpinu jah, örugglega allavega svona 10 til 15 sinnum síðustu daga þar sem spurt er spurningar úr Eurovision og nafnið mitt er svarið,“ skrifar Selma.

Henni finnst hún greinilega vera að missa af tækifæri til að næla sér í gott súkkulaði.

„Hefði það drepið þá Nóa kropplinga að hringja í mig og bjóða mér nokkra poka, þar sem þeir ákvað að nota nafnið mitt í auglýsingu sem er greinilega í power birtingu,“ skrifar Selma en tekur fram að þetta sé sett fram á léttu nótunum. „Maður er greinilega hvergi óhultur þegar kemur að Eurovision.“

Fjörugar umræður sköpuðust um málið á Facebook og voru vinir Selmu á því að Nói Síríus hefði átt að sjá sóma sinn í því að senda henni súkkulaði.

Nútíminn heyrði í Selmu vegna málsins. Sagðist hún ekki endilega vera viss um að fólk hlaupi út í búð að kaupa Nóa kropp þegar nafn hennar ómar í sjónvarpinu. Hún sagði aftur á móti að Nói Síríus hefði brugðist skjótt við og sent henni heilan kassa af súkkulaðinu. Selma á því væntanlega góðar stundir framundan.

Fyrri undankeppni Söngvakeppni RÚV fór fram síðasta laugardag og fylgir sú seinni eftir á laugardaginn. Eftir það keppa sex atriðið um að komast á stóra sviðið í Kænugarði í Úkraínu í maí.

Selma hafnaði í öðru sæti í Eurovision árið 1999 með lagið All Out of Luck. Hún sneri aftur í keppnina árið 2005 með lagið If I Had Your Love en komst því miður ekki upp úr undankeppninni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing