Það hefur ekki farið mikið fyrir „löglegri“ kannabissölu á Íslandi enda má draga þá ályktun að meirihluti landsmanna telji það ólöglegt með öllu. Svo er hins vegar ekki og verslun ein í Hraunbænum er starfandi sönnun þess. Í versluninni Kush í Árbænum má finna fjölbreytt úrval af alls kyns kannabisvörum, allt frá blómum, olíum og húðvörum og svo öll þau tæki og tól sem þarf til þess að nota vörurnar.
„Það var alltaf hugmynd um að selja kannabis löglega þegar lög yrðu sett, en það var ekki fyrr en félagi minn kom með CBD sem hann hafði keypt erlendis frá, og ég löngu hættur að reykja venjulegt kannabis vegna kvíða og vanlíðunar, að ég fyrst fann fyrir alvöru virkni af CBD.“
Blaðamaður Nútímans heimsótti verslunina á dögunum. Það kom blaðamanni á óvart hversu snyrtileg og „fagmannleg“ verslunin er – ef það er hægt að lýsa henni þannig. Hún minnir á dýrar sambærilegar verslanir í Los Angeles. Á einum af veggjum Kush má sjá kannabisblóm upplýst í plexíkössum og svo er verslunarborðið sjálft troðfullt af alls kyns vörum. En við skulum taka útlitið á versluninni og uppstillingar á vörum út fyrir sviga.
Löglegt á Íslandi
Munurinn hins vegar á þessum vörum og þeim sem hafa verið gerðar löglegar og eru seldar víðsvegar í Bandaríkjunum er sá að þær innihalda oftast THC, sem er virka efnið sem hefur vímugjörn áhrif og er enn ólöglegt á Íslandi. CBD, aftur á móti, er ekki vímugjarn og hefur verið leyft hérlendis, enda er það talið hafa bólgueyðandi og slakandi áhrif án þess að valda hugbreytandi upplifun. Þetta hefur leitt til þess að einungis CBD-vörur eru fáanlegar á Íslandi, en ekki þær sem innihalda THC.
En hvaðan koma allar þessar vörur sem þarna eru seldar? Það mætti ætla að það væri erfitt að flytja þetta inn enda lítur þetta bókstaflega út eins og kannabisefni sem innihalda THC?
„Megnið af blómunum okkar eru ræktuð á Íslandi, sem gerir hampinn í Kush einstakan og í hæðstu gæðum. Auk þess erum við einnig með hampyrki frá Frakklandi, þó svo að innflutningur hafi reynst flókinn. Þetta gerir okkur þó kleift að bjóða fjölbreytt vöruval þar sem við tryggjum hæðstu gæði,“ segja forsvarsmenn Kush og vilja undirstrika að þarna er á ferðinni ný tegund íslenskra bænda – atvinnuvegur sem gæti skapað þjóðarbúinu töluverðum tekjum.
Styðja íslenska „bændur“
„Með því að velja íslenskt ræktað styðjum við öll íslenska bændur, frumkvöðla og fyrirtæki sem koma að svona starfsemi. Við hjálpum til við að efla íslenskan efnahag og styrkjum sjálfbærni í landinu saman.“
Það er nú samt ekki hægt að trúa öðru en að lögreglan hafi heimsótt ykkur?
„Við höfum ekki fengið beinar heimsóknir frá lögreglunni, en má vel ætla að þau hafi skoðað okkur óformlega og tekið stikkprufur. Við erum í samræðum við lögreglu varðandi ýmsar CBD tengdar vörur, og tryggjum að okkar vörur uppfylli alltaf lagaskilyrði.“
Hvernig fór með þessar stikkprufur?
„Það er enn í vinnslu en gengur fínt. Allar vörur sem hafa verið rannsakaðar hafa uppfyllt íslensk lög um að THC magn megi ekki vera meira en 0,2%, þar sem það er hugbreytandi efnið í kannabisplöntunni.“
Hvernig dettur ykkur samt í hug að opna svona verslun?
„Það var alltaf hugmynd um að selja kannabis löglega þegar lög yrðu sett, en það var ekki fyrr en félagi minn kom með CBD sem hann hafði keypt erlendis frá, og ég löngu hættur að reykja venjulegt kannabis vegna kvíða og vanlíðunar, að ég fyrst fann fyrir alvöru virkni af CBD. það var akkúrat það sem mig vantaði öll þessi ár af því að reykja venjulegt kannabis, þar sem THC hafði alltaf verið aukaverkun sem ég þurfti að komast yfir til að finna fyrir áhrifum CBD. CBD veitir gríðarlega hugarró og líkamlega slökun án kvíða og sljóleika.“
…og hvernig hafa þá mótttökurnar verið?
„Móttökurnar hafa verið æðislegar! En þetta hefur verið barátta engu að síður. Það kom mest á óvart hvað fólk er aftur farið að sjá hvað náttúrulegar leiðir geta verið hjálpsamar. Hampfélagið hefur barist hart fyrir CBD í gegnum árin, sem gerir þetta auðveldara fyrir okkur, þó svo að við séum fyrstir til að selja hamp til reykinga.“