Félagið Tjáningarfrelsið hefur sent stórum hluta þeirra sem útskrifuðust með meistara- eða doktorsgráðu úr háskólum landsins síðastliðið vor bókina „Þjóðaplágan Íslam“ eftir norska rithöfundinn Hege Storhaug.
Í bréfi sem fylgir bókinni segir að bókin eigi „erindi til allra sem vilja ástunda upplýsta umræðu um eitt helsta vandamál sem steðjar að heiminum nú um stundir.“
Þá segir einnig að félagsmenn Tjáningarfrelsisins telji að í hópnum séu „margir sem eiga eftir að standa framarlega í því að þróa samfélag okkar til bjartrar framtíðar. Þessi bók á erindi til allra sem hafa áhuga á að stunda upplýsta umræðu um þjóðfélagsmál.“
Í bréfinu kemur fram að félaginu hafi borist fjármunir sem safnað var í því skyni að geta gefið bókina til hópsins og fá um þúsund manns hana. Vonast félagsmenn til þess að þau sem fá bókina gefi hana að lestri loknum svo að sem flestum gefist kostur á að kynna sér efni hennar.
Undir bréfið skrifar Valdimar H. Jóhannesson, formaður Tjáningarfrelsisins.