Snærós Sindradóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, sendi Eygló Harðardóttur,félags- og húsnæðismálaráðherra, sms í dag þar sem hún sagðist ásamt manni sínum vilja taka við barni sem er á flótta ef því er veitt hæli hér.
„[Við] gerum okkur grein fyrir því að þetta er skuldbinding til margra ára en hvert einasta barn sem kemur hingað og er bjargað skiptir máli. Endilega verið í bandi þegar þið eruð búin að vinna úr þessu,“ sagði Snærós í skilaboðunum.
Sjá einnig: Örskýring: Milljónir á flótta vegna stríðsátaka
Eygló sagðist í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun vilja taka á móti fleiri flóttamönnum. Hún biðlaði til almennings um að leggja sitt af mörgum við að aðstoða flóttafólk sem þegar er komið til landsins að læra á lífið hér á landi.
Eygló hafði samband við Snærós um hæl og fullvissaði hana um að það væri verið að gera allt til að finna út úr því hvernig á að koma flóttamönnum hingað til lands.
„Nafnið okkar Freys [Rögnvaldssonar] er komið inn í ráðuneyti sem mögulegir fósturforeldrar. Það er skoðað að koma fjölskyldum þeirra flóttamanna sem eru hér fyrir til landsins. Mér sýnist öll ljós vera kveikt. Takk fyrir,“ sagði Snærós á Facebook-síðu sinni.