Ma Jisheng, sendiherra Kína á Íslandi, er horfinn og ekkert hefur heyrst né spurst til hans í rúma sjö mánuði. Þetta kemur fram í DV í dag. Í blaðinu kemur fram að Ma yfirgefið landið 23. janúar síðastliðinn en hugðist snúa aftur í mars.
Ekkert varð af heimkomu og engin svör fást frá kínverska sendiráðinu um afdrif hans. Fjölskylduveikindi eða spillingarmál eru nefnd til sögunnar sem mögulegar ástæður en engar opinberar skýringar hafa verið gefnar út vegna starfsloka sendiherrans. Þeim sem þekkja til er nokkuð brugðið.
Haft er samband við Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Hún segir í skriflegu svari við fyrirspurnni að kínverska utanríkisráðuneytið hafi tilkynnt því íslenska í maí að Ma myndi ekki snúa aftur til starfa á Íslandi. „Við búum ekki yfir frekari upplýsingum, öðrum en þeim að staðgengill sendiherra sé Chen Laiping,“ segir í svarinu.
DV hafði samband við kínverska sendiráðið sem var afar tregt til að svara fyrirspurnum um Ma, samkvæmt umfjöllun blaðsins. „Ég er búinn að tala við fólkið sem stýrir svona löguðu og svarið er að þessu verður ekki svarað á þessum tímapunkti,“ sagði ritari í sendiráðinu í svari til DV.