Margrét Erla Maack hefur beðið í heila viku eftir farangri sínum. Hún kom heim frá Bandaríkjunum, þar sem hún hafði verið að koma fram sem skemmtikraftur, en töskurnar sem innihalda meðal annars sérsaumaða sirkusbúninga, slæðublævængi og magadansbúninga sem fylgdu ekki með.
Margrét starfar sem skemmtikraftur. Hún sýndi á kabarettstöðum á sýningarferðalagi sínu í Seattle, Portland og Los Angeles. Hún var því með mikið af búnaði með sér sem hún notar á sviðinu, búnaði sem erfitt er að endurnýja í einni svipan. Sumt er sérsaumað en annað þarf að panta frá útlöndum.
Hún saknar því mjög atvinnutækja sinna. „Ef þetta væru bara sumarkjólar…,“ segir hún.
Það er enginn að bóka magadansmær og búast við því að hún komi í gallabuxum og skyrtu.
Um helgina þurfti hún að afþakka nokkur gigg þar sem hún er ekki með réttu búningana. Framundan er vinnuferð til Spánar á miðvikudaginn en næsta flug frá Portland, þar sem töskurnar eru sagðar vera, kemur ekki til Íslands fyrr en á fimmtudag.
„Atvinnutækin mín; magadansbúningur í akkúrat minni stærð (erfiðara að finna en maður myndi halda), sérsaumaða sirkusbúninga, allskonar fylgihlutir sem fást ekki á Íslandi; slæðupoj, slæðublævængir, blöðrupumpa, blöðrur sem heyrist sérstaklega hátt í þegar þær springa,“ telur Margrét upp.
Fyrir viku síðan fékk Margrét þær upplýsingar frá flugfélaginu að töskurnar myndu skila sér í dag en það gerðu þær ekki. Hún hefur því ákveðið að auglýsa styrktardanstíma til að bæta upp fyrir tekjutapið sem hún hefur orðið fyrir.
Hér má sjá upplýsingar um tímana
Margrét vill ekki tala illa um flugfélagið og starfsmenn þess en segir að það hafi þó tekið á að bölva ekki allan daginn. „Ég vil miklu frekar senda jákvæða strauma. Það er búið að taka á að vera ekki blótandi allan daginn,“ segir hún.