Víking bruggsmiðja mun um helgina setja í sölu sérstakan HM bjór. Bjórinn verður nefndur Dúllan í höfuðið á Sigga dúllu búningastjóra íslenska landsliðsins og Stjörnunnar. Frá þessu er greint á Vísi.
Hilmar Geirsson, vörumerkjastjóri, hjá Víking brugghús segir í samtali við Vísi að það hafi alltaf staðið til að gefa út HM bjór fyrir sumarið.
„Það var eitthvað svo fyrirsjáanlegt að koma með Húh-bjórinn eða Fyrir Ísland, eða jafnvel bara Aron eða Gylfi. Við ákváðum að fara aðra leið og byrjuðum að ræða við Sigga fyrir þó nokkru síðan. Þetta er maðurinn á bak við tjöldin, svona maður fólksins og meðaljón eins og við hin,“ segir Hilmar.
Dúllan er hefðbundinn lagerbjór en Hilmar segir að Siggi dúlla sé mikill lagermaður og vilji helst ekki vera að flækja hlutina neitt.