Auglýsing

Setur viðbrögð kerfisins við ráni í samhengi við kynferðisbrot: „Enginn spurði hvernig ég var klædd“

Færsla á Facebook þar sem Eva Rún Snorradóttir bendir á hvernig tekið var á því þegar hún var rænd í Reykjavík fyrir tveimur árum hefur vakið talsverða athygli. Eva veltir fyrir sér hvernig kerfið hefði brugðist við ef henni hefði verið nauðgað en hún segist ítrekað hafa froðufellt af reiði yfir meðferðum kynferðisbrota.

Eva var rænd á göngu sinni í Reykjavík í ágúst árið 2015. „Ég var á Skúlagötu um miðnætti, ein á gangi þegar hópur af ungum mönnum umkringdu mig skyndilega og hrópuðu að mér,“ segir hún í færslu sinni á Facebook.

Ég varð gríðarlega hrædd þegar þetta var að gerast, um það sem þeir gætu gert við mig. En létti svo í aðstæðunum þegar strax kom í ljós að þó þeir væru í annarlegu ástandi þá sýndu þeir að þeir hefðu ekki ofbeldi í huga heldur vildu bara hluti frá mér.

Hún segir mennina hafa skipað sér að rétta sér töskuna sína, sem hún gerði án þess að mótmæla. „Þá hlupu þeir í burtu og ég byrjaði fljótlega að hlaupa líka, ringluð og titrandi.“

Mennirnir rændu tvo aðra sama kvöld en lögreglan náði þeim seinna um nóttina og gerði ránsfenginn upptækann. „Það sem gerðist svo í kjölfarið þykir mér ansi áhugavert og sér í lagi til samanburðar við sögur þeirra kvenna sem ég þekki sem hafa þurft að leita til réttarkerfisins eftir kynferðisofbeldi,“ segir Eva.

„Ég fékk fljótlega hringingu frá lögreglunni, mér var tilkynnt að ég ætti von á lögreglu heim sem mundi taka af mér vitnisburð. Eftir það, um það bil einu og hálfu ári eftir atvikið var ég svo kölluð í þingsal þar sem ég þurfti að bera vitni.“

Eva var ekki spurð hvort hún vildi kæra heldur gerði ríkið það. Hún segir ekkert hafa verið í töskunni sinni og bendir á að það hafi tekist að endurheimta það smávægilega sem þeir tóku af hinum.

„Það voru engin vitni. Ég sagði ekki – nei, þegar mér var skipað að rétta þeim töskuna. Það var enginn sem dró vitnisburð minn í efa. Enginn sem spurði af hverju ég stoppaði eða hvernig ég var klædd. Eða leiddi að því líkur að ég hefði bara stoppað þarna og gefið þessu strákagengi töskuna mína,“ segir hún.

„Ég hef svo oft hugsað um hvernig þetta hefði verið ef þeir hefðu nauðgað mér en ekki tekið þessa tösku … Hvernig hefði kerfið þá brugðist við? Ég hef setið heima eins og margir sem ég þekki og froðufellt af reiði ítrekað yfir meðferðum kynferðisbrota. Nú krefjumst við breytinga, fokking fokk.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing